Aðalbjörg Ingvarsdóttir. Mynd: Feykir.is
Aðalbjörg Ingvarsdóttir. Mynd: Feykir.is
Fréttir | 01. mars 2015 - kl. 21:21
Gengið um garða Kvennaskólans í 50 ár

Aðalbjörg Ingvarsdóttir hefur hlúð að Kvennaskólanum á Blönduósi í rúm 50 ár. Hún hóf störf þar sem kennari árið 1964 en frá 1967 veitti hún skólanum forstöðu allt til lokunar árið 1978. Á þessum upphafsárum var enn mikið líf við skólann, konur komu hvaðanæva af landinu til þess að tileinka sér þá fjölbreyttu þekkingu og handtök sem þar voru kennd nýjum kynslóðum hagsýnna húsmæðra. Skólinn er Aðalbjörgu enn hugleikinn en hún, ásamt fleiri Vinum kvennaskólans, hafa unnið ötullega að því að hefja arfleifð skólans til vegs og virðingar.

„Hér voru nemendur úr öllum áttum og af ýmsum skólastigum. Kenndar voru ýmsar bóklegar greinar, t.d. íslenska þar sem reynt var að vekja áhuga á bókmenntum og því sem var að gerast í þjóðfélaginu. Uppeldisfræði og heilsufræði, þá helst miðuð við börn og það sem húsmæður gætu þurft að glíma við á heimilum. Næringarefnafræði, vöruþekking og einnig heimilishagfræði en þar var áhersla lögð á búreikninga og allt mögulegt um skatta, útsvör og ýmis útgjöld,“ nefnir Aðalbjörg sem dæmi um þau fjölbreyttu fög sem tekin voru fyrir í skólanum.

Þegar Aðalbjörg tók forstöðu við Kvennaskólann var þegar farið að bera á fækkun nemenda í húsmæðraskólum landsins. Haustið þegar Aðalbjörg tók við voru nemendur skólans 36, en þeir höfðu alltaf verið um 40 talsins. Á þeim árum sem framundan voru fór nemendum skólans sífellt fækkandi.

„Það varð hröð breyting í þjóðfélaginu á þessum tíma, gríðarlega hröð. En það var farið að brydda upp á þeim viðhorfum að stúlkur áttu ekki að vera hugsa um heimilishald, það ætti að vera jafnræði í því hjá konum og körlum. Áróðurinn var svo sterkur að fólki þótti eins og námið væri lítils virði, sem það náttúrlega alls ekki var, allt þetta nám var mjög mikils virði. Skólinn reyndi alltaf að halda í við breyttar aðstæður og taka inn það sem var nýtt – það var ekki eins og það væri alltaf verið að kenna eitthvað gamalt. Það var jafngilt eftir sem áður að reka sitt heimili á hagkvæman hátt og hugsa vel um heimilið,“ segir Aðalbjörg.

Blaðamaður Feykis settist niður með Aðalbjörgu í Elínarstofu, hluta af Minjastofu Kvennaskólans, og er viðtalið við hana í Feyki sem kom út í síðustu viku.

Heimild: Feykir.is

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga