Fréttir | 05. mars 2015 - kl. 14:11
Söngperlur Vilhjálms og Ellýjar

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps heldur tónleika í kvöld í Blönduóskirkju og hefjast þeir klukkan 20. Hljómsveit Skarphéðins H. Einarssonar sér um undirspil á tónleikunum.

Eftir að síðasta verkefni Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps „Lífsdans Geirmundar Valtýssonar“ lauk fór kórinn að velta fyrir sér nýju verkefni. Eftir frábærar viðtökur á Geirmundar verkefninu, þá langaði kórnum að halda áfram að flytja dægurlög og ekki síst að halda áfram samstarfi við Hljómsveit Skarphéðins Einarssonar. Úr varð að taka valin lög Vilhjálms og Ellýjar og flytja þau, en Rögnvaldur Valbergsson hefur útsett lögin fyrir karlakór og hljómsveit,  ásamt Skarphéðni. 

Hljómsveit Skarphéðins Einarssonar er skipuð eftirfarandi fólki auk hans: Rögnvaldur Valbergsson, Benedikt Blöndal, Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, Hrafnhildur Björnsdóttir, Friðrik Brynjólfsson, Brynjar Óli Brynjólfsson og Bjarni Salberg Pétursson. Einsöngvarar eru Hugrún Sif Hallgrímsdóttir, Eygló Amelía Valdimarsdóttir, Sævar Sigurðsson og Hjálmar Björn Guðmundsson.

Æft hefur verið frá því í haust og nú er komið að frumflutningi en fyrstu tónleikar verða á Blönduósi í Blönduóskirkju í kvöld eins og áður sagði. Í framhaldinu verða tónleikar á Hvammstanga, 9. mars, Sauðárkróki, 11. mars og svo í Miðgarði 22. mars.

Rétt er að geta þess einnig að Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps verður 90 ára á árinu og mun kórinn halda upp á það í Húnaveri á síðasta vetrardag 22. apríl næstkomandi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga