Fréttir | 01. apríl 2015 - kl. 07:20
Sauðfjárbúskapur mikilvægur dreifbýlinu

Landssamtök sauðfjárbænda héldu aðalfund sinn í Reykjavík um liðna helgi. Á fundinum var meðal annars kynnt skýrslan Samfélagsleg þýðing sauðfjárræktar. Hún var unnin af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Í skýrslunni er dregin upp mynd af byggðalegri þýðingu sauðfjárræktarinnar, verðmætasköpun greinarinnar og ýmsu fleiru.

Ýmislegt áhugavert er að finna í skýrslunni þegar gluggað er í hana. Til að mynda kom 15% sláturfjár á landinu frá Húnavatnssýslum árið 2014 en á Blönduósi og Hvammstanga var slátrað um 195 þúsund fjár á síðasta ári. Alls eru 155 bein störf í sauðfjárrækt í Húnavatnssýslum. Það eru 11% af öllum störfum sem þar eru alls metin 1.470 talsins. Hæst er hlutfallið á Ströndum eða 13%.

Af landshlutum var mestu slátrað á Norðvesturlandi. Árið 2014 var 52% af öllu sláturfé slátrað á Sauðárkróki, Hvammstanga og Blönduósi, alls 306 þúsund af 592 þúsund fullorðnu fé og lömbum. Úrvinnslan dreifist hins vegar meira um landið.

Heildar verðmætasköpun sláturfjár á landinu var 10.707 milljónir það ár. Mesta verðmætasköpunin er á Norðurlandi og á Suðurlandi þar sem sláturhúsin og afurðastöðvarnar eru.

Í skýrslunni segir að samfélagsleg þýðing sauðfjárbúskapar sé mikil á dreifbýlli svæðum landsins þar sem hann hafi verið helsti atvinnuvegurinn um langa hríð og forsenda byggðar. Vart verði séð að annað komi í staðinn fyrir hann sem undirstöðuatvinnugrein á þessum svæðum.

Lesa má skýrsluna hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga