Fréttir | 15. apríl 2015 - kl. 07:54
Auglýst eftir tilboðum í skólaakstur

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps leitar eftir tilboðum í akstur grunnskólabarna í Húnavatnshreppi en auglýsingu þess efnis má sjá í nýjasta tölublaði Gluggans. Boðinn er út samningur um skólaakstur fyrir skólaárin 2015/2016, 2016/2017 og 2017/2018. Útboðsgögn liggja frammi á skrifstofu sveitarfélagsins og eru afhent þar.

Í útboðsgögnunum er skilgreint það aksturskerfi sem áætlað er að aka eftir á skólaárinu 2015/2016, 2016/2017 og 2017/2018 en um er að ræða fimm akstursleiðir og er óskað eftir tilboðum í hverja leið fyrir sig.

Tilboðum ásamt þeim gögnum sem beðið er um í útboðslýsingunni skal skila á skrifstofu Húnavatnshrepps eigi síðar en klukkan 11:00, 2. júní 2015 og verða tilboðin þá opnuð. Bjóðendum er heimilt að vera viðstaddir.

Sveitarstjórn áskilur sér allt að 15 daga frest til að vinna úr tilboðunum, að því er fram kemur í auglýsingunni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga