Flugu kastað í Svarthyl
Flugu kastað í Svarthyl
Fréttir | 24. apríl 2015 - kl. 13:44
Varað við stórfelldu eldi á frjóum laxi af norskum uppruna í sjókvíum

Nýlega var haldinn fundur forystumanna veiðifélaga í Húnaþingi. Þar var samþykkt ályktun þar sem varað er alvarlega við stórauknum áformum um sjókvíaeldi á laxi á Vestfjörðum og í Eyjafirði. Sérstaklega er lagst gegn því að eldi á norskum eldislaxi í sjókvíum verði leyft í Ísafjarðardjúpi.

Á fundinum kom fram að eldi þar sé komið alveg að gönguslóð húnvetnskra laxa og geti ógnað stórum laxveiðiám. Eldislax af framandi stofnum sem sleppi úr sjókvíum geti valdið óafturkræfum umhverfisspjöllum og spillt líffræðilegum og efnahagslegum verðmætum.

Í ályktun fundarins segir nú sé hafin þriðja tilraun á uppbyggingu sjókvíaeldis hér á landi. Þær fyrri hafi endað miklu fjárhagslegu tapi og benda megi á nýlegar aðvaranir eyfirskra sjómanna um drasl sem þar flýtur um allan sjó. Þá er bent á að þó það sé alvarlegt og mikill skaði fyrir umhverfið og geti valdið hættu séu þau áhrif þó smámunir miðað við ef íslenski laxfiskastofninn sé eyðilagður.

Ályktun þessi var kynnt landbúnaðarráðherra á fundi á Blönduósi þann 21. apríl síðastliðinn og hann hvattur til þess að beita sér fyrir hagsmunum þeirra sem vilja vernda lífríkið og viðhalda hinum eftirsótta vilta laxastofni í Íslenskum ám.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga