Ungmenni með hesta sína að fara í próf í knapamerki 1.
Ungmenni með hesta sína að fara í próf í knapamerki 1.
Fréttir | 26. apríl 2015 - kl. 12:15
Sýning í Reiðhöllinni Arnargerði
Frá Hestamannafélaginu Neista

Í vetur hefur allmörg börn verið á reiðnámskeiðum hjá Hestamannafélaginu Neista en öflugt barnastarf hefur verið hjá félaginu undanfarin ár. Einnig nokkrir unglingar svo og eldra fólk verið í námi í knapamerkjum. Knapamerki eru röð námskeiða frá knapamerki 1 upp í knapamerki 5, sem kennd eru undir sömu formerkjum um land allt. Þau eru í umsjón Hólaskóla og reiðkennarar menntaðir þar, kenna yfirleitt á námskeiðunum.

Fjöldi manns hefur tekið þátt í þessum knapamerkjanámskeiðum á Blönduósi undanfarin 6 ár undir leiðsögn ýmissa reiðkennara. Kennsla er bæði bókleg og verkleg. Á hverju vori þreyta nemendur próf og standist þau prófið í einhverjum áfanga gefur það rétt til að hefja nám í næsta áfanga. Í vor hafa einhverjir nemendur á Blönduósi tekið próf í öllum áföngunum 5. 

Uppskeruhátíð nemenda knapamerkja og barnastarfs Neista verður haldin í Reiðhöllinni Arnargerði í dag, sunnudaginn 26. apríl og hefst sýning nemenda klukkan 16:00. Þar sýna nemendur hvað þau hafa lært, allt frá börnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestamennsku upp í þá sem hafa meiri reynslu og hafa lokið prófum í hinum ýmsu stigum knapamerkjanna. Þetta verður frábær kynning fyrir þá sem hugsanlega hafa áhuga að læra meira í hestamennsku og sækja svona námskeið síðar. Reiðkennarar í vetur hafa verið Heiðrún Ósk Eymundsdóttir og Pétur Örn Sveinsson reiðkennarar í Saurbæ í Skagafirði.

Foreldrar bjóða upp á kaffisamsæti að hátíðinni lokinni. Allir eru velkomnir.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga