Fréttir | 29. apríl 2015 - kl. 10:30
Sveitarstjórn Húnaþings vestra unir úrskurði “byggðanefndar

Sveitarstjórn Húnaþings vestra ætlar að una úrskurði Óbyggðanefndar frá 19. desember síðastliðnum í ágreiningsmálum um þjóðlendur á svonefndu svæði 8 norður sem nær yfir Húnavatnssýslur vestan Blöndu ásamt Skaga. Sveitarstjórn áskilur sér þó rétt til að taka málið upp að nýju ef ný gögn koma fram.

Þjóðlenduúrskurðurinn var til umræðu á fundi sveitarstjórnar 27. apríl síðastliðinn. Þar lýsti sveitarstjórn yfir vonbrigðum með niðurstöður úrskurðar Óbyggðanefndar en samkvæmt honum teljast austurhluti Víðidalstunguheiðar, landssvæði sunnan Víðidalstunguheiðar, Húksafréttur og Staðarhreppsafréttur til þjóðlendna. Önnur svæði sem krafa var gerð um, vesturhluti Víðidalstunguheiðar, Aðalbólsheiði, Efranúpsheiði og Engjabrekka á Vatnsnesi teljast samkvæmt úrskurðinum ekki til þjóðlendna.

Á fundinum lýsti sveitarstjórn jafnframt yfir óánægju sinni með vinnubrögð íslenska ríkisins í þjóðlendumálinu almennt og þá stórfelldu eignaupptöku sem þar fari fram. Í fundargerð sveitarstjórnar segir að „þrátt fyrir að niðurstaðan sé vonbrigði ber að hafa í huga að úrskurðurinn er í fullu samræmi við úrskurði sambærilegra svæða. Sé tekið tillit til þess sem og eindreginna ráðlegginga lögfræðings sveitarfélagsins um að una úrskurðinum er eftirfarandi lagt til: Sveitarstjórn Húnaþings vestra samþykkir að una úrskurði Óbyggðanefndar í máli 3/2013 og 4/2013 en áskilur sér rétt til að taka málið upp að nýju ef ný gögn koma fram.“

Elín R. Líndal greiddi atkvæði gegn tillögunni og mótmælti með því framgöngu Óbyggðanefndar og ríkisins sem hafi frá upphafi sýnt ótrúlega framgöngu í þjóðlendumálum þar sem m.a. séu ekki virtir þinglýstir kaupsamningar. Slík framganga er að áliti Elínar hrein eignaupptaka.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga