Fréttir | 30. apríl 2015 - kl. 07:49
Víðförull rauðmagi með rafeindamerki

Í ralli Hafrannsóknarstofnunar í mars síðastliðnum voru fjórir rauðmagar merktir um boð í Bjarna Sæmundssyni með rafeindamerki frá Stjörnu Odda og þeim sleppt aftur út af Skaga. Merki þessi safna upplýsingum um dýpi og hitastig á þeim stað þar sem einstaka fiskar hafa haldið sig. Á þann hátt geta merkin gefið mikilvægar upplýsingar um hegðun of atferli einstakra fisktegunda. Eini gallinn er að endurheimta þarf merkin til þess að hægt sé að nálgast upplýsingarnar.

Sagt er frá þessu á vef Biopol á Skagaströnd en fyrirtækið og Hafrannsóknarstofnun hafa um árabil átt gott samstarf, meðal annars í kringum merkingar á hrognkelsum.

Á vefnum kemur fram að þau merku tíðindi gerðust í byrjun apríl að einn af þessum rauðmögum birtist aftur um borð í Sigurey ST 22 frá Drangsnesi. Það er Halldóri Loga Friðgeirssyni skipstjóra og áhöfn hans að þakka að hægt var að nálgast þau forvitnilegu gögn sem hægt var að lesa af merkinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar fiskurinn var merktur (út af Skaga) og einnig hvar hann veiddist aftur (norðan við Drangsnes) 19 dögum seinna. Gula línan endurspeglar stystu hugsanlegu vegalengd á milli punktanna tveggja sem eru um 81 km. Hins vegar eru engar líkur á að fiskurinn hafi valið þann kostinn á ferð sinni.

Á línuritinu má sjá rauða línu sem endurspeglar hitastig sjávar og bláa línu sem gefur til kynna það dýpi sem fiskurinn hélt sig á. Myndin sýnir að fiskurinn hefur ferðast mjög mikið upp og niður í vatnssúlunni allt frá því að vera töluverðan tíma nánast í yfirborði og síðan niður á um 280 metra dýpi. Í lokinn má sjá að fiskurinn festist í neti á tæplega þriggja metra dýpi og er síðan dreginn upp. Áhrif sjávarfalla má greina eftir að fiskurinn festist í netinu.

Ekki er vitað til þess að upplýsingum varðandi ferðir rauðmaga hafi áður verið aflað með þessum hætti, að því er fram kemur á vef Biopol.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga