Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 25. maí 2015 - kl. 20:09
Nýr samningur um Dreifnám í Húnaþingi vestra

Sveitarfélagið Húnaþing vestra hefur gert samning við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um dreifnám í Húnaþingi vestra til ársloka 2019. Í bókun sveitarstjórnar frá 19. maí síðastliðnum er samningnum fagnað og þar segir að Dreifnámið sé samfélaginu í Húnaþingi vestra afar mikilvægt. Með því sé unga fólkinu gert kleift að vera lengur heima en annars með þeim fjárhagslega og félagslega ávinningi sem af því hljótist. Það hafi sýnt sig að fleiri skrá sig til náms á þeim stöðum sem dreifnám er í boði og dreifnámsnemendur hafi skilað sér vel í áframhaldandi nám.

Í bókun sveitarstjórnar er vakin athygli á því að það fjárframlag sem ætlað sé til dreifnámsins frá ríkinu standi ekki straum af öllum kostnaði við rekstur þess. Á þessu ári styðji sveitarfélagið við starf dreifnámsins með fjárframlagi í kringum sex milljónir króna auk þess að niðurgreiða hádegismat til nemenda.  „Sveitarfélagið Húnaþing vestra hefur stutt starf dreifnámsins með líkum hætti frá upphafi og kostaði auk þess standsetningu húsnæðis dreifnámsins og kaup á nauðsynlegum búnaði ásamt fyrirtækjum og félagasamtökum í Húnaþingi vestra,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Þá er einnig vakin athygli á því að þó svo að samningurinn gildi til ársloka 2019 sé í honum ákvæði um lágmarksfjölda nemenda. Það sé því afar mikilvægt að foreldrar í sveitarfélaginu hvetji börn sín til að sækja nám í dreifnáminu fyrstu ár framhaldsskólanámsins til að þjónustan haldi áfram að vera í boði fyrir ungmenni í Húnaþingi vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga