Jörundarfell
Jörundarfell
Fréttir | 26. maí 2015 - kl. 16:55
Ríkisstjórnin úthlutar fjármunum til ferðamannastaða

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að úthlutar 850 milljónum til brýnna verkefna á ferðamannastöðum á þessu ári. Þar á meðal eru nokkur verkefni í Húnavatnssýslum. Ráðist verður í 104 verkefni á 51 stað á landinu, auk þess sem viðbótarfé verður varið til aukinnar landvörslu um allt land. Mest verður framkvæmt í Skaftafelli og á Þingvöllum, við Geysi, í Dimmuborgum, á miðhálendinu, við Gullfoss, Dyrhólaey, Dynjanda, Stöng í Þjórsárdal og Dettifoss. Verkefnin eru af ýmsum toga en megináhersla er lögð á framkvæmdir vegna göngustíga, útsýnispalla, bílastæða og salernisaðstöðu.

Á meðal verkefna í Húnavatnssýslum má nefna að veita á þremur milljónum króna til Þingeyrar og Vatnsdals til að bæta upplýsingagjöf, setja upp leiðbeiningar og skipuleggja sem eina heild. Kattarauga í Vatnsdal fær tæpar tvær milljónir króna til ráðstöfunar fyrir útsýnispall og aðkomuskilti. Borgarvirki fær þrjár milljónir til skipulagsvinnu fyrir svæðið í heild sem miðar að því að verja minjarnar og Hveravellir fá tvær milljónir króna til viðhalds á göngustígum.

Ítarlegt yfirlit yfir fyrirhugaðar framkvæmdir má sjá hér.

Fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun fyrir þetta ár var unnin í samstarfi forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra. Kallað var eftir tillögum þeirra stofnana sem hafa umsjón með umræddum svæðum og í kjölfarið var verkefnum forgangsraðað í samræmi við faglegt mat á því hver þörfin væri. Fjármagnið mun renna til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem mun annast umsýslu og eftirlit með verkefnaáætluninni.

Fjármögnun verkefnanna er háð samþykki Alþingis, en óskað verður eftir fjárheimildum í tillögum til fjáraukalaga 2015.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga