Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi
Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi
Fréttir | 27. maí 2015 - kl. 09:35
Röskun á starfsemi heilbrigðisstofnana

Veruleg röskun verður á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands vegna verkfalls hjúkrunarfræðinga sem hófst á miðnætti. Á vef Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi kemur fram að á heilsugæslu munu hjúkrunarfræðingar aðeins sinna bráðatilfellum og því sem ekki má bíða.

Ungbarnaeftirlit fellur niður, skólahjúkrun fellur niður, reyksíminn fellur niður og læknavaktarsíminn sem hjúkrunarfræðingar á Húsavík hafa verið að svara á dagvinnutíma í fellur niður. Þá fellur niður öll aðkoma hjúkrunarfræðinga að verkefnum s.s. endurnýjun lyfja, símatíma, krabbameinskoðun og teymisvinnu.

Starfsemi á göngu og dagdeildum mun skerðast verulega. Val speglanir falla niður. Hjúkrun á göngudeild sykursjúkra fellur niður. Nauðsynlegar lyfjagjafir, s.s. remicade og sýklalyf, verða gefnar á göngudeildum.

Lágmarksmönnun verður á hjúkrunar- og sjúkradeildum. Það verður ekki tekið inn í hvíldarinnlagnir og ekki verður hægt að taka við sjúklingum frá öðrum stofnunum (nema í undantekningartilfellum). En að sjálfsögðu verður tekið við nýjum sjúklingum sem þurfa að leggjast inn, að því er segir á vef HSB.

Heimahjúkrun skerðist en unnið verður að því að skjólstæðingar í heimahjúkrun fái nauðsynlega þjónustu og að öryggi þeirra skerðist ekki. Ekki verður hægt að taka inn nýja skjólstæðinga í heimahjúkrun á meðan verkfalli stendur, nema í undantekningartilfellum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga