Fréttir | 28. maí 2015 - kl. 21:47
Áheitahlaup Spörtu Heilsuræktar og Training for Warriors hefst á morgun
Hlaupið frá Spörtu Heilsurækt norður á Blönduós

Er það óðs manns æði að hlaupa 250km á rúmum sólarhring, þegar svo virðist sem veturkonungur ráði enn ríkjum á Íslandi? Það finnst örugglega einhverjum en ekki þeim tæplega 30 hlaupurum sem ætla að hlaupa áheitahlaup frá Spörtu Heilsurækt í Kópavogi norður á Blönduós en hlaupið hefst kl. 8:00 föstudaginn 29. maí.

Hlauparar frá Spörtu Heilsurækt og Training for Warriors ætla að hlaupa frá  Kópavogi til Blönduóss og verða rúmlega 20 hlauparar sem hlaupa úr Kópavogi og munu skiptast á að hlaupa. Hlauparar frá Blönduósi munu svo slást í hópinn við afleggjarann að Hvammstanga og hlaupa til Blönduóss. Athygli er vakin á því að um helmingur hlauparanna sem hlaupa frá Spörtu tengjast Austur Húnavatnssýslu á einhvern hátt.

Hlaupið er áheitahlaup til styrktar Umhyggju, félags til stuðnings langveikum börnum og er hægt að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning söfnunarinnar og er reikningsnúmerið 0307-13-110194 kt. 680510-1720.

Hægt verður að fylgjast með hlaupinu á Fésbókarsíðu hlaupsins en bjartsýnir skipuleggjendur hlaupsins stefna á að allur hlaupahópurinn hlaupi inn í bæinn um kl. 11:00, hvenær það verður kemur í ljós á laugardaginn.

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga