Gréta María og Peter. Mynd af Blogg síðu hópsins.
Gréta María og Peter. Mynd af Blogg síðu hópsins.
Fréttir | 29. maí 2015 - kl. 14:19
Í sjálfboðastarfi í Nairobi

Húnvetningurinn Gréta María Björnsdóttir frá Húnsstöðum er á meðal sjö 3. árs hjúkrunarnema úr Háskóla Íslands sem lögðu land undir fót 11. maí síðastliðinn og fóru til Kenýa. Þar starfar hópurinn í fimm vikur sem sjálfboðaliðar á Tigoni District Hospital sem þjónustar fátækrahverfi í úthverfi Nairobi.

Á sjúkrahúsinu eru nokkrar deildir, auk heilsugæslu sem hjúkrunarnemarnir starfa á til skiptis. Þar er fæðingagangur, vökudeild, barnadeild, bráðamóttaka, almenn deild fyrir fullorðna og göngudeild fyrir eyðnisjúklinga og berklasjúklinga. Mikill skortur er á plássi á spítalanum og þar er hver fermetri nýttur. Á heilsugæslunni er enginn læknir og gegna hjúkrunarfræðingar því þeirra starfi líka ásamt því að sinna sínu. Hjúkrunarfræðingarnir, sem eru konur, greina hvað er að og skrifa út lyfseðla,og hafa hjúkrunarnemarnir íslensku lært mikið af þeim. Það hefur komið nemunum á óvart hversu góð þjónustan er þar sem allt er frítt fyrir fólkið.

Hjúkrunarnemarnir hafa m.a. heimsótt ABC barnaþorpið í Nairobi og heilluðust af því. Þeir hafa fært börnunum í þorpinu ýmsar gjafir eins og fótbolta, sippubönd, teygjur, blöðrur, nammi og fleira. Einnig fór hópurinn með smá dótasendingu frá 6. bekk úr grunnskólanum á Egilsstöðum sem höfðu nýlega safnað góðri peningaupphæð fyrir þorpið. Börnin voru eðlilega himinlifandi með gjafirnar og voru boltarnir sérstaklega vinsælir hjá strákunum.

Hægt er að fylgjast með lífi og starfi hjúkrunarfræðinemana á Blogg síðu þeirra http://kenyafarar.blogspot.com/.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga