Fréttir | 03. júní 2015 - kl. 14:57
Fréttir af ársfundi Þekkingarsetursins
Frá Þekkingarsetrinu á Blönduósi

Þann 29. maí var haldinn ársfundur Þekkingarsetursins á Blönduósi í Kvennaskólanum. Árið 2014 var þriðja starfsár Þekkingarsetursins. Það var stofnað í febrúar 2012 með það að markmiði að nýta aðstæður og svæðisbundna sérstöðu til þess að stuðla að aukinni almennri þekkingu og fjölbreytni atvinnulífs með fræðastarfi, eflingu háskólamenntunar, vísindarannsóknum og nýsköpun á sviði strandmenningar, laxfiska og textíls. Fjárhagslegar forsendur setursins eru byggðar á samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið, en samningur til þriggja ára var endurnýjaður og undirritaður í janúar 2015.

Hjá Þekkingarsetrinu starfaði fimm starfsmenn í 3,75 stöðugildum árið 2014: Katharina Schneider, framkvæmdastjóri setursins, Jóhanna E. Pálmadóttir, verkefnastjóri á sviði textíls, Erla Gunnarsdóttir, umsjónarmaður textíllistamiðstöðvar í Kvennaskólanum, og sérfræðingar Catherine Chambers og Daniel Govoni í samstarfi við Háskólann á Hólum. 

Áherslan á árinu 2014 hefur m.a. verið lögð á samþættingu á sviði textíls og uppbygging textíllistamiðstöðvarinnar í Kvennaskólanum. Samstarfssamningur var gerður við Textílsetur Íslands í því samhengi. Listamiðstöð hefur verið rekin í Kvennaskólanum á vegum Textílsetursins síðan 2008, en starfsmenn Þekkingarsetursins hafa tekið þátt í uppbyggingu listamiðstöðvarinnar síðan 2012. Hefur aðsókn listamanna aukist stöðugt síðan. Árið 2014 dvöldu 23 erlendir listamenn í húsinu og hafa m.a. staðið fyrir mánaðarlegum sýningum. Listamenn hafa aðgengi að Heimilisiðnaðarsafninu, en Þekkingarsetrið gerði samstarfsyfirlýsingu við safnið í þeim tilgangi. 43 erlendir listamenn hafa nú þegar bókað sig fyrir 2015.

Að auki var skoðaður möguleiki á uppbyggingu náms á sviði textíls í Kvennaskólanum. Mikill áhugi er fyrir námi og fræðslu á sviði textíls, sérstaklega erlendis frá, t.d. á vefnaði, útsaumi, íslenskri prjónahefð og notkun á íslenskri ull. Tengsl náðust við Listaháskóla Íslands, og í nóvember dvöldu nemendur Listaháskólans í Kvennaskólanum við verkefnavinnu og fengu kennslu í útsaum, spuna, prjóni og hekli hjá Jóhönnu Pálmadóttur. Ragnheiður Björk Þórsdóttir, deildarstjóri Verkmenntaskólans á Akureyri, kom og kenndi nemendum vefnað.

Þekkingarsetur var samstarfsaðili Textílseturs Íslands, Ullarselsins á Hvanneyri, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Bændasamtaka Íslands við undirbúning ráðstefnu um ull og ullarvinnslu. Ráðstefnan „4th North Atlantic Sheep and Wool Conference” var haldinn 4. – 9. september 2014 á Blönduósi. Meira en 100 manns frá þrettán þjóðum sóttu ráðstefnuna heim. Þekkingarsetrið hlaut styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra vegna verkefnisins.

Unnið var að ýmsum öðrum verkefnum, þar á meðal átaksverkefni um ferðamál í samstarfi við Ferðamálafélag A-Hún., og þýðingar. Kynningarfundir voru haldnar vegna niðurstöðu úr þarfagreiningu á námsframboði á Norðurlandi vestra í samstarfi við Farskóla NV. 

Fjarnámsaðstöðu (Námsver) sem staðsett var á Þverbraut 1 á Blönduósi var flutt í Kvennaskólann í haust, og hafa starfsmenn setursins síðan haft umsjón með því. 24 fjarpróf á framhaldsskóla – og háskólastigi áttu sér stað í Kvennaskólanum árið 2014.

Sérfræðingar Þekkingarsetursins unnu að rannsóknaverkefnum á sviði laxfiska og strandmenningar og tóku þátt í ráðstefnum og málþingum innanlands og utan. Þau kynntu sig og rannsóknir sínar fyrir nemendum grunnskóla á svæðinu og leiðbeindu háskólanemum við lokaritgerðir og rannsóknarverkefni. Að auki bjuggu þau til fræðsluefni um laxfiska fyrir Laxasetur Íslands, skipulögðu fyrirlestur í Kvennaskólanum og fræðslugöngu um lífríki Blöndu á Húnavöku, bæjarhátíð Blönduóss.

Framundan eru spennandi tímar við frekari rannsóknarvinnu á sérsviðum setursins og uppbygging innlendra- og erlendra tengsla. Mörg tækifæri eru á sviði textíls og mun áhersla verða áfram lögð á samþættingu á sviði textíls, uppbyggingu textílnáms í samstarfi við textílstofnana og háskóla innanlands sem utan, og uppbyggingu listamiðstöðvarinnar í Kvennaskólanum.

Hlutverk Þekkingarsetursins er m.a. að stuðla að auknu samstarfi og samþættingu menntunar, rannsókna og fræðastarfs til hagsbóta fyrir svæðið. Hvetjum við fólk til að líta við hjá okkur bæði á sýningar listamanna, fyrirlestra og annað sem hér er á döfinni hverju sinni. Ekki síður hvetjum við fólk til að hringja eða líta til okkar á skrifstofutíma í Kvennaskólann, ef einhverjar spurningar vakna.

Fleiri upplýsingar má finna á heimasíðu setursins, www.tsb.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga