Þrjár efstu í pönnubökuabakstrinum. Ljósmynd: Umfi.is
Þrjár efstu í pönnubökuabakstrinum. Ljósmynd: Umfi.is
Fréttir | 28. júní 2015 - kl. 10:12
Pönnukökubaksturinn vakti mikla athygli

Það hefur verið líf og fjör alla helgina á Landsmóti UMFÍ 50+ á Blönduósi en keppni lýkur eftir hádegi í dag. Ein grein í mótinu vekur alltaf jafn mikla athygli en það er pönnukökubaksturinn og svo var einnig nú því áhorfendur troðfylltu Kvennaskólann þar sem keppnin fór fram.

Sagt er frá þessu á vef UMFÍ í dag. Mikil spenna var í kringum keppnina en það fór svo að lokum að Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir, 81 árs gömul, frá Hurðarbaki í Flóa sem stóð uppi sem sigurvegari. Jóna Halldóra Tryggvadóttir frá Hvammstanga varð í öðru sæti og Vilborg Pétursdóttir í hafnaði í þriðja sæti. Þess má geta að Jóna Halldóra sigraði í þessari grein á mótunum sem haldin voru á Hvammstanga og Mosfellsbæ 2011 og 2012.

 „Ég er búin að taka nokkrum sinnum þátt í pönnubökubakstri á Landsmótum UMFÍ og einu sinni áður á Landsmóti UMFÍ 50+ á Húsavík í fyrra. Það er þessi gamli keppnisandi sem drífur mig áfram og hrein og bein ástríða. Þetta er bara svo óskaplega gaman og andinn er svo góður. Ég hlýt að vera svona góða og gera pönnukökur en það eru líka vinsælar heima hjá mér. Galdurinn að gera góðar pönnukökur er að hafa góða uppskrift og gott hráefni. Hún er ekkert leyndarmál og ég hef dreift henni hér á mótinu. Ég ætla að taka þátt á næsta ári og hlakka mikið til. Ég er haldin íþróttaanda og hef verið í íþróttum frá því að ég var krakki og tekið þátt í mörgum landsmótum. Börnin mín hafa verið á kafi í íþróttum,“ segir Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir í frétt á vef UMFÍ.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga