Skjáskot úr fréttum Ríkissjónvarpsins
Skjáskot úr fréttum Ríkissjónvarpsins
Fréttir | 05. júlí 2015 - kl. 21:40
Útilokað að álver verði byggt á næstu árum

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar alþingis, sagði í fréttum Ríkissjónvarpsins um helgina að það væri hreinlega útilokað að af byggingu álvers við Skagaströnd geti orðið á næstu árum. Verkefni af þessari stærðargráðu kalli á annað tveggja, gríðarlega uppbyggingu dreifikerfis rafmagns eða nýjar virkjanir, sem hvort tveggja sé afar tímafrekt.

Í viðtali í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi sagði Jón að virkjanakostirnir í neðri hluta Þjórsár sem hart var tekist á um á nýliðnu þingi séu þeir einu sem orðið geta að veruleika á þessum áratug. Hugsa verði allar álversfyrirætlanir af raunsæi með tilliti til þessara aðstæðna.

Um það, hvort honum þætti sveitarstjórnarmenn nyrðra vera að vekja fólki falskar væntingar með álvershugmyndum sínum í ljósi þessa, sagðist hann ekki telja að þeir vildu gera slíkt, heldur væru þeir að benda á mikilvægi uppbyggingar og þess, að skjóta sterkari stoðum undir atvinnulífið á svæðinu. Menn yrðu hinsvegar að vera raunsæir í þeim efnum.

Jón sagði að þó að öll orka kæmi úr Blöndu og viðbótarorka, þá myndi það ekki duga til í þetta verkefni við Hafursstaði. Það muni taka einhver ár að endurnýja og byggja upp dreifikerfið og það muni líða nokkur ár þar til að mögulega sé hægt að virkja í Skagafirði, verði það einhvern tímann.

Eigandi Klappa Development, Ingvar Unnsteinn Skúlason gefur lítið fyrir fullyrðingar Jóns Gunnarssonar um að útlokað sé að álver rísi á Norðurlandi vestra á næstu árum. Hann minnir á fyrri fyrirheit stjórnvalda um iðnaðaruppbyggingu á svæðinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga