Sigurður Jónasson
Sigurður Jónasson
Fréttir | 06. júlí 2015 - kl. 11:22
Minnisvarði um Sigurð Jónasson

Byggðaráð Blönduósbæjar hefur samþykkt að koma að uppsetningu á minnisvarða um Sigurð Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, þýðanda af bókinni Kúgun kvenna, þar sem bent var á stöðu kvenna um aldamótin 1900. Í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna hefur hópur aðila undir forystu Þórs Jakobssonar tekið sig saman um að minnast þeirra tímamóta með uppsetningu minnisvarða sem staðsettur verður á Þríhyrnunni á gatnamótum Húnabrautar og Árbrautar á Blönduósi.

Sigurður Jónasson íslenskaði bókina „On the Subjection of Women“ eftir enska heimspekinginn John Stuart Mill. Hún kom fyrst út árið 1869 og er grundvallarrit í vestrænni kvennabaráttu. Ritið fékk heitið „Kúgun kvenna“ á íslensku. Hið íslenska kvenfélag gekkst fyrir útgáfu ritsins árið 1900. Löngu seinna var ritið, að frumkvæði nemenda og kennara í kvennafélagsfræði við Háskóla Íslands, gefið út á ný árin 1997 og 2003 hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Sigurður lést á 24. aldursári, drukknaði af skipi er hann var á leið í framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Hann var öllum harmdauði. Þýðingarafrek hins unga manns er enn í minnum haft. Ættmenni hans hafa unnið að því að reisa minningarstöpul á Blönduósi. Afhjúpun er ráðgerð 7. ágúst næstkomandi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga