Fréttir | 07. júlí 2015 - kl. 11:09
Orkuöflun verður erfið fyrir nýtt álver

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, sagði í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu í morgun að það yrði erfitt að útvega næga orku til þess að álver í Skagabyggð verði hagkvæmt. Hann vildi þó ekki slá hugmyndir um 120 þúsund tonna álver á Hafursstöðum út af borðinu sem óraunhæfar.

„Öll þessi umræða er svolítið í liðnum tíma. Við erum með frjálsa samkeppni á orkumarkaði á Íslandi. Það þýðir það að sá sem er tilbúinn til að borga nógu há verð getur fengið orku,“ sagði Guðni í samtali við Morgunútgáfuna í morgun og bætti við að ef miðað sé við þær aðstæður og forsendur í dag sem hafa verið við fjármögnun, þá yrði erfitt að finna næga orku á svæðinu á því verði sem þarf til að álver verði hagkvæmt. Guðni vill þó ekki ganga svo langt að segja hugmyndir um álver á Hafurstöðum óraunhæfar.

„Ég mun ekki dæma um það. Viðskiptahugmyndir eru bara viðskiptahugmyndir. Þær eru háðar því verði sem menn fá fyrir afurðirnar. Það er ekki hægt að dæma neitt óraunhæft á þessu stigi málsins. En orkuöflun af þessari stærðargráðu, 200 megavött, hún mun taka dálítinn tíma þó að það séu há verð í boði fyrir orkuna,“ sagði Guðni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga