Fréttir | 21. júlí 2015 - kl. 10:53
Aðstaða skotfélagsins tryggð til frambúðar

Byggðaráð Blönduósbæjar hefur samþykkt erindi stjórnar Skotfélagsins Markviss um að gerð verði breyting á aðalskipulagi sveitarfélagsins í þá veru að gert verði ráð fyrir æfinga og keppnissvæði skotfélagsins á núverandi stað, sem er austan flugvallarins. Þannig vill skotfélagið tryggja að aðstaða félagsins verði þar til frambúðar og að hægt verði að ráðast í gerð riffilbrautar.

Erindi skotfélagsins barst byggðaráði 2. júní síðastliðinn en þá var ákveðið að fela byggingarfulltrúa að meta hvort sú breyting á skipulagi sem óskað var eftir myndi standast lög og reglur og hvað slíkt myndi kosta. Í minnisblaði byggingarfulltrúa sem lagt var fram á fundi byggðaráðs 15. júlí síðastliðinn kemur fram að ekki verði sé að neitt banni þessa staðsetningu og að kostnaður við aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingu sé áætlaður allt að 1,6 milljón króna auk virðisaukaskatts.

Byggðaráðið samþykkti því erindi Skotfélagsins Markviss og fól byggingarfulltrúa að vinna málið frekar.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga