Fréttir | 22. júlí 2015 - kl. 08:26
Eldurinn tendraður

Bæjarhátíðin Eldur í Húnaþingi hefst í dag og stendur til 26. júlí næstkomandi. Þetta er í þrettánda sinn sem hátíðin er haldin en hún hefur skipað sér fastan sess í Húnaþingi vestra undanfarin ár. Hátíðin verður formlega sett í kvöld klukkan 20 á hafnarsvæðinu á Hvammstanga, í portinu á milli Sjávarborgar og KVH. Þar verður eldurinn tendraður í eldsmerkinu góða, nýstofnaður Gospelkór Húnaþings vestra flytur nokkur lög og unglistarsjoppan verður á svæðinu. Kjötsúpa verður í boði fyrir gesti og gangandi.

Ýmsir viðburðir hafa skiptað sér fastan sess á hátíðinni og er Melló Músíka einn af þeim en sá viðburður fer fram á fimmtudagskvöldinu. Undan farin ár hafa verið haldnir tónleikar í Borgarvirki á föstudagskvöldinu og hafa tónlistarmenn á borð við Röggu Gísla, KK, Egil Ólafsson, Hörð Torfa, Regínu Ósk og Ásgeir Trausta spilað og sungið fyrir gesti. Að þessu sinni er það Jón Jónsson sem mun sjá um að framreiða fagra tóna á þessum kynngimagnaða stað. 

Að loknum tónleikum í Borgarvirki eða um klukkan 23:00 byrja tónleikar í Félagsheimilinu Hvammstanga þar sem aðalnúmerið er Skálmöld. Hljómsveitin Rythmatík hitar upp fyrir Skálmöld en hljómsveitin vann Músíktilraunir í ár.

Á laugardeginum er fjölskyldudagurinn haldinn hátíðlegur. Undanfarin ár hefur verið boðið upp á andlitsmálningu og hoppukastala fyrir yngri kynslóðina og grill fyrir alla fjölskylduna. Ásamt því að keppt er á milli fyrirtækja og ungir sem aldnir spreyta sig í sápufótboltakeppni.

Laugardagurinn endar með dansleik um kvöldið. Undanfarin ár hafa hljómsveitir á borð við Buff, Í Svörtum Fötum, Skítamóral og Sniglabandið skemmt hátíðargestum á lokadansleiknum. Að þessu sinni verður það hljómsveitirnar Buff og Lexía sem halda uppi stuðinu.

Á sunnudeginum verður hljómsveitin Sniglabandið í beinni á Rás 2 á Hvammstanga frá 13-15. Opinn dagur verður á Stóri-Ásgeirsá í Víðidal og haldið verður frjálsíþróttamót USVH í Reykjaskóla í Hrútafirði.

Útvarp Eldur verður starfrækt á meðan á hátíðinni stendur, FM106,5.

Búið er að dreifa bæklingi hátíðarinnar til íbúa Húnaþings vestra og víðar, en það er einnig hægt að nálgast hann á vef hátíðarinnar, www.eldurhunathing.com.

Hátíðin er á Facebook og á vefnum www.eldurhunathing.com.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga