Skjáskot úr Morgunblaðinu í dag.
Skjáskot úr Morgunblaðinu í dag.
Fréttir | 23. júlí 2015 - kl. 09:34
Beisla á vindorku í Blöndulundi

Landsvirkjun hefur látið gera tillögu að tilhögun nýs virkjunarkosts sem kallaður er Blöndulundur. Um er að ræða þyrpingu allt að 40 stórra vindmylla á neðri hluta veituleiðar Blönduvirkjunar, nokkuð innan við Blöndustöð og Gilsárlón. Fjallað erum þetta í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir forstjóra Landsvirkjunar að þessi áform séu enn á byrjunarreit. Ekki sé því hægt á þessu stigi að nefna neinar tímasetningar um hvenær til framkvæmda geti komið. Verkefnið eigi eftir að fara í gegnum ferli rammaáætlunar og umhverfismat og það taki sinn tíma.

Í Morgunblaðinu kemur fram að svæðið sem um ræðir sé dæmigert heiðarlandslag og er alls um 143 ferkílómetrar að stærð. Framkvæmdasvæði Blöndulundar er áætlað um 20 ferkílómetrar og áætlað að um 0,4 ferkílómetrar muni raskast vegna uppbyggingar á 100 MW virkjunar, en áætlað er að virkjunin geti orðið allt að þeirri stærð.

Landsvirkjun telur að svæðið verði að öllum líkindum byggt upp í áföngum til að mæta orkuþörf hverju sinni. Nú sé unnið að forathugun á svæðinu en fyrsta mat á orkugetu svæðisins og forathugun á fuglalífi á svæðinu liggi fyrir. Auk þess séu fyrirliggjandi niðurstöður umhverfisrannsókna á hluta af rannsóknarsvæðinu sem hefur verið afmarkað fyrir Blöndulund.

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að fyrirhugaður vindlundur sé í næsta nágrenni við Blönduvirkjun. Innviðir til raforkuflutnings séu því til staðar á svæðinu. Fyrirhugað sé að tengja saman og safna raforku frá vindmyllunum eftir jarðstrengjum að tengivirki innan svæðisins.  

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga