Fréttir | 04. ágúst 2015 - kl. 09:48
Kvæða- og vísnavefurinn Húnaflói ársgamall

Eins og fram kom í pistli Inga Heiðmars Jónssonar hér á Húnahorninu 1. ágúst síðastliðinn er kvæða- og vísnavefurinn Húnaflói ársgamall, í vikunni. Ríkisútvarpið fjallaði um afmælið í fréttum sínum á sunnudaginn og ræddi við Inga Heiðmar um vefinn sem hann segir að sé öðru þræði áhugamál safnara og burtflutts Norðlendings, sem gjarnan vilji leggja nokkuð af mörkum til að efla menningu í heimabyggðum og snúast gegn fólksflótta af svæðinu. Hann vonar að kveðskapurinn geti spornað við fólksfækkuninni og stuðlað að betri einingu í þorpum og sveitum.

Ingi Heiðmar hefur safnað saman kvæðum og lausavísum úr Húnavatnssýslu og af Ströndum í heilt ár og komið þeim fyrir á Húnaflóa –  Kvæða og vísnavef. Þar má nú nálgast vísur 377 hagyrðinga sem tengjast svæðinu með einum eða öðrum hætti. Ingi Heiðmar segi í samtali við Ríkisútvarpið að á vefnum kenni ýmissa grasa, en nefnir einkum Sigurð Norland, sem var prestur í Hindisvík á öndverðri 20. öldinni.

„Þegar ég var í MA í gamla daga þá vorum við mikið að grobba af Sigurði, því hann orti einu sinni hringhendu á ensku og við héldum kannski að hún væri sú eina sem ort hefði verið. Þetta fannst okkur dálítið gaman, að leggja undir sig enskuna til að íslenska hringhendan yrði þar landnemi,“ segir Ingi Heiðar og lætur hringhendu Sigurðar fylgja.

She is fine as morn' in may,
mild divine and clever,
lika a shiny summerday.
She is mine forever.

Ingi Heiðmar segir að það sé mikilvægt að leita leiða til að finna meiri samstöðu í samfélaginu, því alltaf fækki fólkinu. Hann vonar að kveðskapurinn geti verið vopn í þeirri baráttu. „Ég vil trúa því að þetta geti verið ofurlítið lóðs til þess að efla sameiningu í sveitinni.“

„Húnaflói er flóinn sem liggur milli Strandabyggðar og Skagastrandar, en vísurnar koma beggja vegna flóans. Héröðin báðum megin flóans tengjast svo mikið. Strandafjöllin eru mikið skraut fyrir okkur sem stöndum í fjörunni á Blönduósi. Og menn sem áttu ekki land til að búa á á Ströndum fluttu til Skagastrandar,“ segir Ingi í samtali við Ríkisútvarpið og tekur fram að vísur hafi borist títt milli sveitanna. „Vísurnar voru kannski fjölmiðlar þess tíma. Blöðin voru að byrja að koma út, og stundum þurfti að dreifa þeim gegnum Kaupmannahöfn,“ segir hann.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga