Sigurður Líndal Þórisson. Mynd: Selasetur.is
Sigurður Líndal Þórisson. Mynd: Selasetur.is
Fréttir | 04. ágúst 2015 - kl. 22:47
Framkvæmdastjóraskipti á Selasetrinu

Í byrjun sumars sagði framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands á Hvammstanga, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, starfi sínu lausu. Gengið hefur verið frá ráðningu nýs framkvæmdastjóra og mun Sigurður Líndal Þórisson taka til starfa þann 1. október. Unnur mun gegna starfi framkvæmdastjóra þangað til. Þetta kemur fram á vef Selasetursins.

Sigurður  er frá Lækjamóti í Víðidal, en hefur búið í Lundúnum í 20 ár. Síðastliðin fjögur ár hefur hann verið í stjórnunarstöðu hjá Expedia, stærsta ferðaþjónustufyrirtæki heims. Þar leiddi hann m.a. farsællega til lykta flókið verkefni sem unnið var á 20 tungumálum, í þremur heimsálfum, og kostaði rúman milljarð króna.

Sigurður er með leikarapróf frá Arts Educational London School of Drama; M.A. gráðu í listastefnu og -stjórnun frá Birkbeck College, University of London; og kennsluréttindi frá Strode’s College.

Sigurður hefur leikstýrt á sjötta tug leikverka, og kenndi við suma virtustu leiklistarskóla Bretlandseyja í meira en áratug, auk þess að vera aðstoðarleikhússtjóri Tabard leikhússins í Lundúnum í 3 ár.

Sigurður er giftur Gretu Clough, brúðulistamanni og leikara frá Vermont-fylki í Bandaríkjunum. Þau eiga ársgamla dóttur, Elínu Rannveigu Líndal.

 

 

 

 

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga