Svarthylur á svæði II hefur gefið vel
Svarthylur á svæði II hefur gefið vel
Fréttir | 27. ágúst 2015 - kl. 08:36
Blanda setur Íslandsmet

Heildarveiði í Blöndu sem af er sumri er komin í 4.303 laxa en Landssamband veiðifélaga birti nýjar tölur um laxveiði úr helstu laxveiðiám landsins í gærkvöldi. Vikuveiðin í Blöndu var 286 laxar en vikan þar á undan gaf 456 laxa. Blanda er þar með búin að slá Íslandsmet í fjölda veiddra laxa hjá sjálfbæru laxveiðiánum á Íslandi. Þverá/Kjarrá átti Íslandsmetið sem var frá árinu 2005 þegar þar veiddustu 4.165 laxar.

Strax í júlí síðastliðnum var Blanda búin að slá eigið veiðimet sem var frá árinu 2010 en þá veiddust 2.777 laxar í ánni það sumarið. Veiðst hafa um 2.600 laxar á neðsta svæðinu þar sem aðeins er veitt á fjórar stangir en mesta veiðin um þessar mundir mun vera á efsta svæðinu. Staða Blöndulóns er þannig að ekki er von á yfirfalli á næstunni og því er öruggt að Blanda muni halda áfram að bæta eigið met sem og Íslandsmetið yfir sjálfbærar laxveiðiár.

Fjöldi veiddra laxa í Miðfjarðará er orðinn 4.445 sem er frábær árangur og langt umfram veiði allt sumarið í fyrra sem endaði í 1.694 löxum. Laxá á Ásum er einnig að gera góða hluti því veiðin þar er komin í 1.367 laxa á aðeins tvær stangir. Er þetta þriðja árið í röð sem áin skilar fleiri en þúsund löxum.

Alls hafa 1.170 laxar veiðst í Víðidalsá í sumar sem er 70% meira en allt síðasta sumar. Vatnsdalsá er að nálgast þúsund laxa múrinn en eftir gærkvöldið höfðu 947 laxar veiðst í ánni sem er 24% meiri veiði en allt síðasta sumar. Í Hrútafjarðará og Síká hafa veiðst 570 laxar sem er tvöföldun m.v. í fyrra og í Svartá hafa veiðst 460 laxar í sumar sem er 57% meiri veiði en allt síðasta sumar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga