Fréttir | 27. ágúst 2015 - kl. 12:58
Miðfjarðará að stela athyglinni
Metin falla - enn af laxveiði

Vikuveiðin í Miðfjarðará síðustu viku nam 742 löxum og er heildarfjöldi veiddra laxa nú kominn í 4.445, sem er Íslandsmet í fjölda veiddra laxa hjá sjálfbæru laxveiðiánum á Íslandi. Miðfjarðará hefur þannig silgt fram úr Blöndu í fjölda veiddra laxa í sumar. Íslandsmet Blöndu stóð því stutt en á dögunum fór veiðin þar yfir 4.165 laxa og sló áin 10 ára gamalt Íslandsmet sem Þverá/Kjarrá átti hjá sjálfbærum laxveiðiám á Íslandi. Nú hefur Miðfjarðará gert enn betur.

Í frétt á vef Landssambands veiðifélaga er staldrað við þessar tölur úr Miðfjarðará en þar kemur fram að hvergi sé að finna meiri vikuafla úr sjálfbærri laxveiðiá síðan byrjað var að safna þessum tölum árið 2006. Ljóst sé að síðan 1974 hafi sjö sumur skilað minni heildarafla úr Miðfjarðará en á land kom þar síðustu vikuna. Aðeins tvisvar áður hafi heildarafli Miðfjarðará losað 4.000 fiska. Áin sé greinilega að bæta sig stórlega frá öllum árum sem heimildir séu til um.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga