Fréttir | 28. ágúst 2015 - kl. 17:02
Metabolic í Íþróttamiðstöðinni
Frá Erlu Jakobsdóttur íþróttafræðingi og ÍAK-einkaþjálfara

Húnvetningum býðst að sækja Metabolic námskeið, sem hefur slegið í gegn um allt land, í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi. Í tímunum taka allir vel á því í stuttan tíma í einu með hléum á milli, í svokallaðri skorpuþjálfun (interval),  en slík þjálfun skilar fitubrennslu í marga klukkutíma eftir æfinguna, mun meiri brennslu heldur en æfingar með jöfnu álagi. Námskeiðið er mjög fjölbreytt og byggir á þjálfun á mismunandi orkukerfum. Unnið er með fitubrennslu, kraft, styrk og þol svo dæmi séu tekin.

Rauði þráðurinn í gegnum alla tímana er að allar æfingarnar eru það sem kallast starfrænar (functional) sem þýðir að þær líkjast daglegum hreyfingum okkar sem mest. Flestir finna fyrir einhverjum stoðkerfisverkjum eins og eymslum í öxlum eða baki en í starfrænni þjálfun er mikil áhersla lögð á að styrkja djúpvöðvakerfið og því ætti fólk að finna mikinn mun á sér þegar það fer að gera æfingarnar sem lagt er upp með á námskeiðinu. Öll höfum við þá eiginleika að geta sprettað, hoppað og verið sterk en ef við gleymum að þjálfa þessa eiginleika tapast þeir. 

Í september byrjar Metabolic fyrir unglinga eða frá 5.-7. bekk saman og svo 8.-10.bekk. Það er nýjung og vona Erla að bæði foreldrar og börn taki vel í þessa tíma. Þessir tímar eru mjög góður undirbúningur fyrir framtíðina og búa til góðar venjur fyrir börnin. Einnig er nýtt námskeið að fara af stað næstkomandi mánudag, 31.ágúst. Það er lokað námskeið sem heitir Metabolic Blitz og verður á morgnana.

Endilega skráið ykkur sem fyrst þeir sem hafa hug á að vera með næstu 6 vikurnar í því námskeiði. Hefðbundnu tímarnir verða á sínum stað. Það er alltaf hægt að koma og prófa og bætast í skemmtilega hópinn okkar. Samhliða þeim tímum verður einnig keyrt erfiðari útfærsla af tíma fyrir þá sem það vilja.

Hafið samband ef þið hafið einhverjar spurningar á erla@blonduskoli.is og eins hægt að senda mér skilaboð á facebook. Hlakka til að sjá ykkur, kveðja Erla Jakobsdóttir.

 

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga