Fréttir | 31. ágúst 2015 - kl. 22:36
Málþing um Jóhönnu Jóhannesdóttur

Málþing um Jóhönnu Jóhannesdóttur frá Svínavatni verður haldið á vegum Þekkingarsetursins í Kvennaskólanum á Blönduósi 27. september næstkomandi.

Jóhanna Jóhannesdóttir (f. 4.11.1895, d. 1.5.1989) var bóndakona og hæfileikarík handyrðakona frá bænum Svínavatni í Austur-Húnavatnssýslu. Hún stundaði nám á Kvennaskólanum á Blönduósi, sem vakti áhuga hennar á íslenskum heimilisiðnaði, og lærði vefnað á Akureyri. Jóhanna var sérstök áhugamanneskja um vinnslu úr íslenskri ull, vann ullina frá grunni og prjónaði verk sem vöktu athygli jafnt innanlands sem utan. Sjöl og hyrnur hennar voru notuð til höfðingjagjafa í nafni íslensku þjóðarinnar, og sjal eftir hana var sýnt á fyrstu Norrænu listiðnaðarsýningunni í París árið 1958. Jóhanna var stofnaðili og einnig formaður Kvenfélags Svínavatnshrepps um tíma og tók virkan þátt í að miðla þekkingu og varðveita séríslenska menningararfleifð.

Það á vel við að vekja athygli á þessari merku konu og minnast hennar á 120 ára afmælisárinu, en þetta er einnig mikilvægt ár í sögu kvenna (100 ára afmæli kosningarétts kvenna). 

Málþing verður sett í Kvennaskólanum kl. 14:00, en Dr. Áslaug Sverrisdóttir, Iðunn Vignisdóttir og Sólborg Pálsdóttir sagnfræðingar muni flytja erindi. Nánari dagskrá verður auglýst síðar. Málþingið er haldið í samstarfi við Textílsetur Íslands, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og Heimilisiðnaðarfélag Íslands. SSNV, Landsvirkjun og Húnavatnshreppur styrkja verkefnið.

Sagt er frá þessu á vef Þekkingarsetursins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga