Fréttir | 03. september 2015 - kl. 08:49
Miðfjarðará nálgast 5.000 laxa
Húnavatnssýslur með 30% hlutdeild í laxveiðinni

Enn er ágætis gangur í laxveiðinni í Húnavatnssýslum. Laxveiðisumarið kemst í sögubækurnar því algjör metveiði hefur verið í Blöndu og Miðfjarðará. Laxá á Ásum er einnig að gera góða hluti og er að nálgast sín bestu veiðiár á áttunda og níunda áratugnum. Veiðin í Víðidalsá hefur líka verið með ágætum eftir nokkuð slök ár og Svartá og Vatnsdalsá hafa gefið góða veiði í sumar.

Samkvæmt nýjum tölum frá Landssambandi veiðifélaga yfir helstu laxveiðiár landsins sem birtar voru í gærkvöldi er Blanda komin í 4.538 veidda laxa, Miðfjarðará í 4.978 laxa, Víðidalsá í 1.289 laxa, Laxá á Ásum í 1.472 laxa og Vatnsdalsá í 1.040 laxa. Svartá var komin í 496 laxa en mesta skráða veiði í ánni er frá árinu 210 þegar 572 laxar voru skráðir. Hrútafjarðará er komin í 640 laxa og nálgast nýtt met.

Vikuveiðin í Blöndu er nú komin niður í 235 laxa en í vikunni á undan veiddust 286 laxar. Mest var vikuveiðin í lok júlí en þá komu á land 734 laxar eða tæplega 8 laxar á stöng á dag. Vikuveiðin í Miðfjarðará var 533 laxar á 10 stangir en vikan þar á undan gaf 742 laxa, sem líklega er Íslandsmet í laxveiði á einni viku í sjálfbærri á. Ekki vantar nema 22 laxa upp á að áin nái 5.000 löxum en það mun þá vera í fyrsta skipti sem sjálfbær laxveiðiá nær þeirri tölu.

Af helstu laxveiðiám landsins hafa flestir laxar veiðst í Ytri-Rangá og Hólsá eða 5.631 lax. Næst flestir laxar hafa veiðst í Miðfjarðará eða 4.978 og Blanda er í þriðja sæti með 4.538 laxa eina og áður sagði.

Alls hafa veiðst 49.086 laxar í 75 aflahæstu laxveiðiám landins. Þar af eru sjö laxveiðiár úr Húnavatnssýslum sem hafa gefið samtals 14.453 laxa eða tæplega 30% af heildinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga