Fréttir | 02. október 2015 - kl. 13:45
Sauðfjárslátrun gengur vel á Blönduósi

Sauðfjárslátrun hjá SAH Afurðum á Blönduósi hefur gengið vel það sem af er sláturtíðar að sögn Gunnars Tr. Halldórssonar, framkvæmdastjóra félagsins. Gert er ráð fyrir að slátrað verði út þennan mánuð og að slátrað verði um 100 þúsund fjár sem er svipað og verið hefur undanfarin ár. Gunnar segir að sala afurða félagsins sé meiri í ár en hún var í fyrra og að starfsmenn séu að drukkna í verkefnum.

Um 160 manns vinna um þessar mundir í húsnæði SAH Afurða við Húnabraut og Hafnarbraut á Blönduósi og hafa starfsmenn aldrei verið fleiri en þar af er um 100 útlendir starfsmenn. Vel gekk að ráða starfsfólk í sláturhúsið í haust en um 90% af því kemur ár eftir ár. Stöðugildum hefur fjölgað í sauðfjárslátruninni þar sem nú er farið að salta gærur aftur á Blönduósi en það hefur ekki verið gert undanfarin ár. Söltunin fer fram í húsnæði félagsins við Hafnarbraut en þar er einnig gistiaðstaða fyrir starfsmenn.

Geta má þess að vambir eru seldar í verslun SAH Afurða á Blönduósi og þá er verið að tala um alvöru vambir. Í sláturtíðinni í fyrra heyrðust háværar óánægjuraddir neytenda með það að ekki væri hægt að fá alvöru vambir í verslunum. SAH Afurðir brugðust við þessum óskum hratt og vel og undir lok sláturtíðar í fyrra var hægt að fá vambir frá Blönduósi á tilteknum sláturmörkuðum Krónunnar. Gunnar segist ekki vita hvort að vambir félagsins rati í verslanir Krónunnar að þessu sinni en í það minnst verður hægt að kaupa þær í verslun SAH Afurða á Blönduósi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga