Horft heim að Hafursstöðum. Ljósmynd: Axel Jón.
Horft heim að Hafursstöðum. Ljósmynd: Axel Jón.
Fréttir | 05. október 2015 - kl. 09:27
Heppin að halda unga fólkinu

Skagabyggð er eina sveitarfélagið á Norðurlandi vestra þar sem íbúum hefur fjölgað frá árinu 1998 en í dag eru um 9% fleiri íbúar í sveitarfélaginu en voru fyrir 17 árum síðan í Skagahreppi og Vindhælishreppi. Á þessum árum hafa orðið kynslóðaskipti á bæjunum í sveitarfélaginu, ungt fólk hefur tekið við og komið sér upp fjölskyldu. Fjallað var um þessa íbúaþróun í laugardagsútgáfu Morgunblaðsins og rætt við Vigni Á. Sveinsson, oddvita Skagabyggðar og bónda á Höfnum.

Árið 1998 var 91 íbúi samanlagt í Skaga- og Vindhælishreppi. Voru þeir orðnir 105 þegar sameining tók gildi í maí 2002. Næstu ár sveiflaðist fjöldinn til, en var þó alltaf í kringum 100 og varð mestur 106 árið 2010. Síðan þá hefur orðið lítilsháttar fækkun og um síðustu áramót áttu 99 íbúar lögheimili í Skagabyggð, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins.

Íbúar Skagabyggðar byggja sína afkom fyrst og fremst á landbúnaði og lítilsháttar sjávarútvegi. aðallega er stunduð sauðfjárrækt en einnig er þar myndarleg kúabú. „Hér er mikill og góður landbúnaður og við getum talist heppin að halda unga fólkinu og fá það til að taka við. Síðan á eftir að koma í ljós hvað gerist með þá kynslóð sem er að vaxa úr grasi núna. Starfsaldur foreldranna verður kannski ekki búinn þegar þeirra börn eru komin á vinnumarkað og barneignaraldur. Við vitum ekki enn hvað gerist. Við gætum lent í því upp úr 2020 að fólkinu fari að fækka ef börnin kjósa að flytja burtu. En er á meðan er,“ segir Vignir í samtali við Morgunblaðið.

Vignir segir að áform álver við Hafursstaði muni koma til með að styrkja samfélögin í heild sinni á Norðurlandi vestra og tekur undir með sveitarstjóra Skagastrandar að við blasi að sameina verði sveitarfélögin verði álversáform að veruleika.

Á sömu blaðsíðu í laugardagsútgáfu Morgunblaðsins er rætt við Magnús B. Jónsson, sveitarstjóra á Skagaströnd og segir hann að engin áform séu uppi um að endurtaka sameiningarkosningu en næstu sveitarstjórnarkosningar verða árið 2018. Magnús tekur undir með Vigni að verði áform um stóriðju á Hafurstöðum að veruleika muni forsendur á svæðinu gjörbreytast.

Þegar umræða var um álver á þessum slóðum hafði Magnús orð á því við aðra sveitarstjórnarmenn að ef áformin gengju eftir yrðu öll sveitarfélög á Norðurlandi vestra að sameinast Skagabyggð. „Þetta er í mínum huga nokkuð skýrt. Ef af þessu verður þá verða sveitarfélögin að sameinast,“ segir Magnús og bendir á að í Austur-Húnavatnssýslu séu fjögur sveitarfélög með innan við 2.000 íbúa samanlagt.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga