Fréttir | 12. október 2015 - kl. 09:54
Funduðu með fjárlaganefnd um málefni sveitarfélagsins

Oddviti og sveitarstjóri Húnavatnshrepps voru gestir á fundi fjárlaganefndar Alþingis þann 5. október síðastliðinn þar sem rædd voru fjárhagsleg samskipti ríkisins og sveitarfélagsins. Oddviti og sveitarstjóri fóru yfir helstu málefni frá sveitarstjórn Húnavatnshrepps en þau snú meðal annars að samgöngum, fjarskiptamálum, ferðaþjónustu, aðkomu ríkisins að refa- og minkaveiðum, sauðfjárveikivarnargirðingum, dreifnámi og heilbrigðismálum.

Hvað samgöngumálin varðar þá gerir sveitarstjórn Húnavatnshrepps þá kröfu til stjórnvalda og þingmanna í fjárlaganefnd að brugðist verði við og auknu fjármagni veitt til viðhalds vegna innan Húnavatnshrepps og á næstu árum verði stóraukin áhersla lögð á að leggja bundið slitlag á þá. Einnig telur sveitarstjórn nauðsynlegt að setja verulegt fjármagn í viðhald og uppbyggingu Kjalvegar enda sé ástand hans mjög slæmt. Jafnframt leggur sveitarstjórn mikla áherslu á að lagt verði bundið slitlag á Þingeyrarveg en um hann sé mikil umferð að sumri til, enda afar fjölsóttur sögu- og ferðamannastaður á Þingeyrum. Þá leggur sveitarstjórn þunga áherslu á að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin hafa verið um uppbyggingu Svínvetningabrautar.

Hvað heilbrigðismál varðar þá leggur sveitarstjórn Húnavatnshrepps mikla áherslu á að þingmenn í fjárlaganefnd standi vörð um heilbrigðisþjónustu í Austur-Húnavatnssýslu og að grunnþjónusta verði tryggð. Í gögnum sveitarstjórnar segir að Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi hafi búið við mikinn samdrátt síðastliðin ár. Starfsemi stofnunarinnar sé komin að þolmörkum og ef um frekari samdrátt verði að ræða muni það bitna verulega á þjónustu við íbúana. Að gefnu tilefni leggi Húnavatnshreppur mikla áherslu á að staðið verði vörð um heilbrigðisþjónustu í héraðinu. Tryggt verði að sú breyting sem gerð hafi verið með stofnun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands leiði ekki til skertrar þjónustu fyrir íbúana né frekari fækkunar starfa.

Þá segir í gögnum sveitarstjórnar: „Traust og fjölbreytt atvinnulíf í þéttbýli og dreifbýli er grunnurinn að því að stöðva megi viðvarandi fólksfækkun á Norðurlandi vestra. Ungt vel menntað fólk þarf að eiga þess kost að fá störf við sitt hæfi í heimahéraði. Gera verður þá kröfu til ríkisvaldsins að störfum á vegum ríkisins verði fjölgað á svæðinu, þá er löngu orðið tímabært að í Austur Húnavatnsýslu verði byggð upp starfsemi sem nýtir orku Blönduvirkjunar. Tryggt verði að unnið verði eftir þeirri viljayfirlýsingu sem samþykkt var á Alþingi 17. október 2013 er varðar atvinnuuppbygginu í Austur Húnavatnssýslu.“

Lesa má þau gögn og áherslupunkta sem fulltrúar sveitarstjórnar Húnavatnshrepps skildu eftir hjá fjárlaganefnd hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga