Frá Blönduósi
Frá Blönduósi
Fréttir | 23. nóvember 2015 - kl. 07:05
Telur fýsilegan kost að reisa hótel á Blönduósi

Ámundakinn ehf. lét í fyrra gera frumathugun á staðarvali fyrir 60 herbergja, þriggja til fjögurra stjörnu hótel á Blönduósi. Þeir staðir sem komu til skoðunar voru Hnjúkabyggð 31, Norðurlandsvegur 4 og sundið á milli Húnabrautar 4 og Félagsheimilisins en sú staðsetning var hagkvæmust. Þetta kemur fram í viðtali við Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóra Ámundakinnar í nýjasta tölublaði Feykis.

„Til þess að af hótelbyggingu geti orðið þarf einnig að semja við einhvern aðila um reksturinn, áður en farið er af stað,“ segir Jóhannes sem telur það þó fýsilegan kost að reisa hótel á Blönduósi. „Ef við horfum á landakortið þá eru hótel í Borgarnesi, Stykkishólmi og á Ísafirði. Þá er fremur lítið hótel í Varmahlíð, en síðan á Siglufirði og Akureyri. Ég lít því þannig á að Blönduós sé í miðjum þessum hring og hér vanti gistingu í þeim gæðaflokki sem stór hluti ferðamanna sækist eftir. Ég tel að hótel sem væri í þessum gæðaflokki myndi fjölga ferðamönnum en ekki draga úr aðsókn að þeim gistimöguleikum sem eru fyrir,“ segir Jóhannes Torfason í viðtali við Feyki.

Félagið Ámundakinn var stofnað á Blönduósi árið 2003. Starfsemi þess er aðallega tvíþætt, annarsvegar eignarhald og rekstur húsnæðis (leiga) og hinsvegar eignaraðild og þátttaka í rekstri fyrirtækja.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga