Frá heimsókn í leikskólann Ásgarð. Mynd: Húnaþing vestra
Frá heimsókn í leikskólann Ásgarð. Mynd: Húnaþing vestra
Fréttir | 26. nóvember 2015 - kl. 14:41
Eldvarnarvika í Húnaþingi vestra

Nú stendur yfir Eldvarnarvika í Húnaþingi vestra en undanfarin ár hafa Brunavarnir Húnaþings vestra nýtt síðustu vikuna í nóvember til þess að vinna að forvarnar- og fræðsluverkefnum á sviði brunavarna. Farið er í leikskóla og grunnskólann og börnin frædd um eldvarnir. Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, TM, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands og slökkviliðin í landinu.

Slökkviliðið heimsækir leikskóla þar sem börnin fá fræðslu um eldvarnir og eru virkjuð sem aðstoðarmenn slökkviliðsins. Þá er farið í grunnskólann þar sem Slökkviálfarnir Logi og Gló aðstoða við fræðsluna og fá öll börn í þriðja bekk söguna af hetjulegri baráttu þeirra systkina við Brennu-Varg að gjöf. Í sögunni er eldvarnagetraun og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá sem senda LSS réttar lausnir. Krakkarnir fá einnig handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimila með sér heim.

Eldvarnarvika er árlegt Eldvarnarátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem fram fer í nóvember. Slökkviliðsmenn um allt land taka þátt í Eldvarnaátakinu í aðdraganda hátíðanna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga