Grunnskólinn á Hvammstanga
Grunnskólinn á Hvammstanga
Fréttir | 30. nóvember 2015 - kl. 14:02
Vilji til að halda áfram skólastarfi á Borðeyri

Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur samþykkt tillögu sviðsstjóra fjölskyldusviðs og skólastjórnenda grunn- og leikskóla sveitarfélagsins varðandi rekstrarfyrirkomulag skólanna á Borðeyri. „Vilji sveitarstjórnar stendur til þess að halda áfram skólastarfi á Borðeyri en með áframhaldandi fækkun nemenda verður grundvöllur þess sífellt minni, bæði ef horft er til kostnaðar en einnig ef hafðir eru í huga félagslegir hagsmunir nemenda,“ segir í bókun sveitarstjórnar frá 26. nóvember síðastliðnum.

Í bókun sveitarstjórnar segir einnig að miðað við óbreyttar forsendur og það viðmið um nemendafjölda sem lagt sé til í tillögunni verði skólahald óbreytt á Borðeyri út skólaárið 2017/2018. Ef breytingar verða á nemendafjölda til þess tíma verður fyrirkomulag skólastarfs á Borðeyri endurskoðað. Að þeim tíma loknum verður metið hvernig skólahaldi verður best fyrirkomið í framhaldinu.

Tillaga sviðsstjóra fjölskyldusviðs og skólastjórnenda grunn- og leikskóla að breyttu rekstrarfyrirkomulagi grunn- og leikskóla að Borðeyri sem taka mun gildi 1. janúar næstkomandi er í megindráttum sú að kennt verður í þrjá daga á viku á Borðeyri og tvo daga á Hvammstanga. Auglýst verður eftir kennara í 60 -70% starf frá 2. janúar-30. apríl 2016. Aðrir starfsmenn verð leiðbeinandi í list- og verkgreinum í 4 klst. á viku, matráður, þrif og deildarstjóri leikskóla í samtals í 1,2 stöðugildum. Ef ekki fæst kennari þá mun núverandi starfsfólk (leiðbeinandi í list- og verkgreinum, matráður og deildarstjóri) taka að sér skólastarfið (leik og grunnskóla) þrjá daga í viku með stuðningi kennara (2-5 klst. á viku og handleiðslu kennara frá Hvammstanga).

Leikskóli verði lokaður á föstudögum (auk fimmtudaga eins og nú er). Foreldrar geta sótt um heimadag einhverja föstudaga. Frá og með næsta skólaári 2016-2017 verði ráðinn kennari við skólann í fullt starf sem taki að sér grunn- og leikskólanemendur saman þrjá daga í viku. Áfram verða grunnskólanemendur keyrðir á Hvammstanga tvo daga í viku með möguleika á einhverjum heimadögum.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga