Horft heim að Hafursstöðum. Ljósmynd: Axel Jón.
Horft heim að Hafursstöðum. Ljósmynd: Axel Jón.
Fréttir | 11. desember 2015 - kl. 23:00
30 milljónir til undirbúnings fyrir álver

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis hefur lagt til Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra fái 30 milljónir króna í fjárlögum vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðis á Hafursstöðum í Skagabyggð. Í byrjun nóvember óskuðu samtökin eftir 70 milljónum vegna undirbúnings fyrir hugsanlegt álver á Hafursstöðum. Undirbúningurinn felst í rannsóknum á náttúrufari, vinnu við að markaðssetja svæðið, skoðun á hafnarmálum og fleiri þáttum sem snúa að innviðum.

„Auðvitað hefðum við viljað fá meira, eins og allir aðrir, en við erum sátt við þennan áfanga,“ segir Adolf H. Berndsen, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í samtali við Ríkisútvarpið á dögunum.

Þurfa meiri pening til að halda áfram

Gróflega er áætlað að slíkt verkefni kosti um 70-100 milljónir króna. Verði tillaga meirihlutans samþykkt óbreytt, þurfa sveitarfélögin að finna fjármagn annars staðar.

„Við höfum full not fyrir þennan pening og stefnum að því að halda okkar striki þrátt fyrir að við fáum ekki allan þann pening sem við óskuðum eftir. Vonandi koma styrkir annarsstaðar frá og svo eru þetta auðvitað sveitarfélögin sem standa að þessu verkefni, og geta vonandi sett meira inn í það sjálf. Ef við ætlum að halda áfram þetta, þá þurfum við að leysa þau mál,“ segir Adolf.

Eins og áður hefur komið fram, eru óvissuþættir við byggingu álvers enn þó nokkrir. Kínverska fyrirtækið NFC og Klappir Development hafa undirritað viljayfirlýsingu um fjármögnun þess, en óljóst er hvaðan orkan kæmi. Orkuþörfin er sögð vera 206 MW, og 400 MW þegar búið verður að stækka það eins og áætlanir gera ráð fyrir. Áætlað er að tilkynnt verði um það í vor, að bygging álversins muni verða að veruleika. Heimild: Rúv.is

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga