Fréttir | 04. febrúar 2016 - kl. 20:41
Húnar aðstoða í óveðrinu
Lögreglan beinir því til ökumanna að vera ekki á ferðinni

Björgunarsveitin Húnar í Húnaþingi vestra hefur staðið í ströngu síðan óveður skall snarpt á nú seinnipartinn en á svæðinu er nú mikil veðurhæð og ofankoma. Ökumenn hafa lent í vanda á brautinni inn að Hvammstanga, sunnan við Múla og á Holtavörðuheiði. Hefur sveitin komið um 20 manns á átta bílum til aðstoðar. Sagt er frá þessu á vef Landsbjargar.

Lögreglan á Norðurandi vestra hefur sett tilkynningu inn á Fasbókarsíðu sína þar sem hún beinir því til ökumanna að vera ekki á ferðinni enda sé víða afspyrnusæmt veður á löggæslusvæði hennar og þá sérstaklega í Húnaþingi vestra. Fram kemur að björgunarsveitarmenn á breyttri jeppabifreið hafi verið tvær klukkustundir að aka frá Hvammstanga að Víðihlíð en slíkt ferðalag tekur að jafnaði um 20 mínútur.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga