Fréttir | 09. febrúar 2016 - kl. 15:17
Ámundakinn kaupir gamla Mjólkurstöðvarhúsið

Á stjórnarfundi Ámundakinnar ehf. í dag  var kynntur samningur þar sem Auðhumla svf. selur Ámundakinn gömlu mjólkurstöðina á Húnabraut 33 á Blönduósi. Viðræður um þessi viðskipti hafa staðið yfir um nokkra hríð. Kaupverðið er greitt með útgáfu nýrra hlutabréfa í Ámundakinn og verður Auðhumla þar með stærri hluthafi í félaginu.

Markmið Auðhumlu með þessum viðskiptum er að stuðla að því að heimafólk fái full yfirráð yfir húsinu, sem verður afhent 1. apríl næstkomandi og það geti nýst til eflingar atvinnulífs á svæðinu. Þessi gjörningur er því í samræmi við yfirlýsingar sem Auðhumla gaf þegar mjólkurvinnslu var hætt á Blönduósi árið 2008.

Stjórn Ámundakinnar metur þessi viðskipti mikils og telur mjög mikilvægt að húsnæðið sé að fullu komið í eigu og umsjá heimafólks. Jafnframt er hún þess fullviss að þessi kaup muni reynast farsæl til framtíðar.

Samhliða þessum viðskiptum var kynnt samkomulag um langtímaleigu Mjólkursamsölunnar (MS) á hluta hússins og um tiltekna þjónustu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga