Fréttir | 11. febrúar 2016 - kl. 11:16
112 dagurinn
Viðbragðsaðilar með hópakstur um Hvammstanga

112-dagurinn er í dag, en hann er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Á vef Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra kemur fram að almannavarnir séu þema dagsins. Áhersla sé lögð á að í samfélaginu sé viðbúnaður og viðbrögð við náttúruhamförum, sérstaklega jarðskjálftum og óveðri. 

Því er einnig fagnað í dag að 20 ár eru liðin frá því Neyðarlínan tók upp evrópska neyðarnúmerið 112 hér á landi. Það einfaldaði málið töluvert á neyðarstundu því númerið leysti af hólmi 146 mismunandi símanúmer viðbragðaðila.

Í tilefni dagsins ætla viðbragðsaðilar í Húnaþingi vestra að efna til hópaksturs um Hvammstanga. Allir fá að fara með í bílana meðan pláss leyfir og verður lagt af stað í hópaksturinn frá Húnabúð klukkan 17:15.

Hópaksturinn endar inni í reiðhöllinni Þytheimum þar sem Húnar verða með klifurvegg fyrir ofurhuga sem allir geta spreytt sig á, ásamt því að búnaður og tæki verða til sýnis. Einnig mun slökkviliðið sýna björgun úr bílflaki. Kaffi og kleinur í boði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga