Skjáskot úr myndskeiði Róberts
Skjáskot úr myndskeiði Róberts
Fréttir | 28. apríl 2016 - kl. 15:43
Myndaði gæsavarp í Hrútey

Róbert Daníel Jónsson fer víða með flygildi sitt og myndar með því fallega náttúru Húnavatnssýslu. Á Youtube má finna nýlegt myndefni frá Róberti þar sem hann myndar gæsavarp í Hrútey og vísindaveiðar í Víðidalsá sem fram fóru á dögunum. Myndirnar frá Hrútey eru frá þeim tíma sem eyjan er lokuð og var fengið leyfi hjá Blönduósbæ til að mynda á varptímabilinu.

Hrútey er umlukin jökulánni Blöndu og er algjör náttúruperla við Blönduósbæ. Hrútey er tilvalin sem útivistarstaður. Þar eru góðir göngustígar og rjóður með bekkjum og borðum. Svæðið er opið öllum almenningi en fylgja ber reglum um umferð og afnot. Hrútey er þó friðuð fyrir allri umferð frá 20. apríl til 20. júní vegna varps fugla.

Á eyjunni er talsvert gæsavarp. Gæsirnar halda mikið til í bænum með ungana eftir varpið og er það mögnuð sjón að sjá gæsirnar koma með ungana niður jökulánna. Gæsirnar og ungarnir setja skemmtilegan svip á Blönduósbæ yfir sumartímann.

Hér má sjá gæsavarpið í Hrútey

Hér má sjá vísindaveiðar í Víðidalsá

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga