Fréttir | 04. maí 2016 - kl. 10:01
Prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum

Aðalfundur kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hefur samþykkt að haldið verði prófkjör fyrir alþingiskosningarnar í haust til að stilla upp á framboðslista flokksins í kjördæminu. Aðalfundur kjördæmisráðsins var haldinn í Borgarnesi síðastliðinn laugardag.  Á fundinum var samþykkt stjórnmálaályktun sem er eftirfarandi:

„Aðalfundur Kjördæmaráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fagnar þeim mikla árangri sem náðst hefur á yfirstandandi kjörtímabili. Bætt lífskjör, lækkandi skuldir heimila og fyrirtækja, lág verðbólga, lítið atvinnuleysi og fjölgun fjölbreytilegra starfa, traust stjórn fjármála ríkisins, lækkandi skuldir hins opinbera, góður viðskiptaafgangur, aukin fjárframlög í mikilvæga málaflokka samfara lækkun skatta, eru til marks um að vel hefur tekist til við stjórn landsins á þessum tíma.

Farsæl niðurstaða í skuldauppgjöri við hin föllnu fjármálafyrirtæki, leggur grunninn að afléttingu gjaldeyrishafta, sem er mikilvægasta einstaka verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Allt þetta skapar forsendur fyrir öflugri framfarasókn íslensks samfélags og verður grundvöllur að góðri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Framundan eru alþingiskosningar. Sjálfstæðismenn ganga ótrauðir til þeirrar baráttu sem nú fer í hönd undir öflugri forystu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og Ólafar Nordal varaformanns flokksins. Fundurinn þakkar þeim sérstaklega fyrir þeirra miklu og góðu störf í þágu lands og þjóðar.“

Á vef mbl.is í dag kemur fram að Haraldur Benediktsson vilji skipa fyrsta sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í haust og að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, sækist eftir öðru sæti listans.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga