Fréttir | 27. maí 2016 - kl. 13:59
Jákvæður rekstur hjá Húnavatnshreppi

Ársreikningur Húnavatnhrepps fyrir árið 2015 var samþykktur af sveitarstjórn fyrir skömmu. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta var jákvæð um 13,8 milljónir króna en í A hluta var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 17,1 milljón króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2015 nam 400,2 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta nam 394,6 milljónum króna. Skuldahlutfall er 31%.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 382,0 milljónum króna samkvæmt samantektum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 376,6 milljónum króna. Rekstrartjöld A og B hluta námu 366,8 milljónum króna, en þar af námu rekstrargjöld A hluta 357,3 milljónum króna.

Við síðari umræðu um ársreikninginn sem fram fór á sveitarstjórnarfundi 4. maí síðastliðinn lögðu fulltrúar E-lista fram bókun þar sem bent var á hversu hátt hlutfall tekna sveitarfélagsins komi frá Jöfnunarsjóði eða 34,5%. Þannig hafi framlög sjóðsins hækkað um 22 milljónir króna á milli ára og að um ótryggar tekjur væri að ræða. Þá bentu fulltrúar E-lista á að handbært fé sveitarfélagsins hefði lækkað um 42 milljónir króna á milli ára, úr 127 milljónum í upphafi árs, niður í 85 milljónir króna í árslok 2015. Með þessu áframhaldi yrði sjóðurinn fljótur að klárast.

Fulltrúar A-lista létu færa til bókar að lækkun á handbæru fé væri tilkomin vegna fjárfestinga á árinu 2015 sem hefðu verið verulegar. Ráðist hefði verið í viðhaldsframkvæmdir sem voru óhjákvæmilegar og séu eignfærðar fjárfestingar um 41 milljón króna á árinu. Engin ný lán hafi verið tekin á árinu og eldri lán greidd niður. Einnig bentu fulltrúar A-lista á að útistandandi kröfur hefðu hækkað töluvert á milli ára.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga