Fréttir | 31. maí 2016 - kl. 11:56
Húnanet stofnað um ljósleiðaravæðingu Húnavatnshrepps

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps samþykkti á fundi sínum 4. maí síðastliðinn að stofna B deildarfélag til að halda utan um ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins á árinu 2016. Félagið fékk nafnið Húnanet ehf. Stjórn félagsins skipa þeir Þorleifur Ingvarsson, sem er formaður, Guðmundur Svavarsson og Ægir Sigurgeirsson.

Þá hefur Guðmundur Svavarsson verið ráðinn verkefnastjóri hjá félaginu og mun hann meðal annars hafa eftirlit með verktökum, samskiptum við landeigendur og ýmislegt fleira. Hann mun hefja störf 7. júní næstkomandi.

Í nýjasta fréttabréfi Húnavatnshrepps kemur fram að ljósleiðaraverkefnið sé í fullum gangi. Auglýst hafi verið eftir verktökum til að taka þátt í forvali í lokuðu útboði vegna lagningar á ljósleiðara. Alls hafi sjö aðilar skilað inn forvalsgögnum. Fengu þeir allir send útboðsgögn sem þeir hafa frest til dagsins í dag að skila í lagningu ljósleiðara um sveitarfélagið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga