Laxveiði í Blöndu
Laxveiði í Blöndu
Fréttir | 31. maí 2016 - kl. 21:47
Blanda opnar á sunnudaginn

Laxveiðitímabilið er að hefjast um helgina og opnar Blanda næstkomandi sunnudag, 5. júní. Blanda og Norðurá í Borgarfirði hafa undanfarin ár opnað á sama tíma en að þessu sinni fer opnun Norðurár fram degi fyrr eða á laugardaginn. Samkvæmt Guðmundi Hauki Jakobssyni á Blönduósi er laxinn mættur í Blöndu en hann sá 14-16 punda lax, nýrunninn og spegilbjartan í Holunni í dag.

Blanda skiptist í fjögur svæði og er það aðeins svæði eitt sem opnar 5. júní. Laxveiði á svæðum tvö til fjögur hefst 20. júní.

Metveiði í fyrrasumar
Gríðarlega góð veiði var í húnvetnskum laxveiðiám í fyrrasumar og aldrei veiðst eins margir laxar. Metin féllu eitt af öðru en Miðfjarðará, Blanda, Hrútafjarðará og Svartá slógu allar sín eigin veiðimet.

Í Miðfjarðará veiddust 6.028 laxar í fyrrasumar sem er nýtt eigið veiðimet og nýtt met í laxveiði í sjálfbærri á en fyrra metið var 4.165 laxar sem veiddust í Þverá/Kjarrá árið 2005. Blanda stórbætti sitt eigið met en alls veiddust þar 4.829 laxar í fyrrasumar en fyrra metið var 2.777 laxar.

Hrútafjarðará bætti einnig sitt eigið met en þar veiddust 790 laxar í fyrrasumar. Fyrra metið var frá árinu 2013 þegar 702 laxar komu á land. Þá setti Svartá nýtt met í fyrra en þá veiddust 625 laxar. Fyrra metið var frá árinu 1998 þegar 619 laxar veiddust í ánni.

Laxá á Ásum endaði í 1.795 veiddum löxum í fyrrasumar og var það þriðja árið í röð sem fleiri en þúsund laxar veiðast í ánni. Ána vantaði rétt um 100 laxa til að setja nýtt veiðimet. Í öðrum ám hefur gangurinn verið góður eins og í Víðidalsá en þar komu 1.572 laxar á land og í Vatnsdalsá þar sem veiddust 1.275 laxar í fyrrasumar.

Flestir laxar í Blöndu veiddust á svæði eitt í fyrrasumar eða 2.545 sem er um 53% af heildarveiðinni í ánni. Veitt var á fjórar stangir á svæðinu og var hver stöng því að gefa rúmlega sjö laxa á dag sem er frábær veiði. Svæði fjögur gaf næst flesta laxa eða 843, svæði tvö gaf 815 laxa og svæði þrjú 626 laxa.

Breytt fyrirkomulag veiða í Blöndu í sumar
Á vef Lax-á eru kynntar breytingar á veiðireglum í Blöndu í sumar. Þar segir að Blanda fóstri ákaflega sterkan sjálfbæran stofn og er vilji til að tryggja að svo verði áfram. Sem hluti af veiðistjórnun verður settur sanngjarn en ríflegur kvóti á öll svæði. Kvóti á svæði 1 verður nú sex laxar á vakt á stöng í stað tólf laxa á dag. Hér er um tæknilega útfærslu að ræða en ekki minnkun á dagskvóta. Ekki verður heimilt að færa óveiddan kvóta á milli vakta.

Á svæði 2 verður kvóti þrír laxar á vakt á dag á hverja stöng. Ekki verður heimilt að færa óveiddan kvóta á milli vakta. Veiðihúsið Móberg fylgir svæði tvö frá og með komandi sumri.

Á svæði 3 verður kvóti þrír laxar á vakt á dag á hverja stöng. Ekki verður heimilt að færa óveiddan kvóta á milli vakta. Gisting í Hólahvarfi með morgunverði fylgir hverri stöng.

Á svæði 4 verður einungis leyft að veiða á flugu allt tímabilið. Kvóti verður þrír laxar á vakt á dag á hverja stöng. Ekki verður heimilt að færa óveiddan kvóta á milli vakta. Sleppa verður öllum laxi sem er 70 sentímetrar og yfir.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga