Blönduból. Myndin er af vefnum osinn.is.
Blönduból. Myndin er af vefnum osinn.is.
Fréttir | 20. júní 2016 - kl. 13:02
Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra lokar hluta gistihúss Blöndubóls

Heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra hefur ákveðið að knýja á um úrbætur á Gistiheimilinu Blöndubóli á Blönduósi með því að takmarka starfsemina. Gistiheimilinu verður eingöngu leyft að selja gistingu í smáhýsum en notkun íbúðarhúsnæðis fyrir gistiþjónustu verði óheimil þar til búið verði að uppfylla kröfur eftirlitsins. Þetta kemur fram í fundargerð heilbrigðisnefndarinnar frá 16. júní síðastliðnum.

Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að eigandi Blöndubóls hafi neitað að verða við beiðni heilbrigðiseftirlitsins um úrbætur og því hafi ákvörðun þess um lokun að hluta verið tekin.

„Við fórum í skoðun á gistihúsinu og gerðum athugasemdir varðandi þrif. Vildum við að því yrði kippt í liðinn og settum við fram kröfur um að bætt yrði úr þrifum og að eigandi myndi setja áætlun af stað til úrbóta þar sem þrifum var ábótavant,“ segir Sigurjón Þórðarson, heilbrigðisfulltrúi í samtali við Fréttablaðið.

Haft er eftir Jóni Skaftasyni í blaðinu að málið sé byggt á misskilningi. Hann segir að aðfarirnar séu sprottnar upp úr einni færslu útlenskra kvenna á Facebook þar sem þær sökuðu staðinn um óþrif. „Það er nú bara þannig að þær pöntuðu gistingu í herbergi en vildu gistingu í sér gisthúsi sem ég er með. Því urðu þær ósáttar og dreifðu á Facebook einhverjum lygapósti,“ segir Jónas. „Þetta er byggt á misskilningi og tittlingaskít og því skil ég ekki alveg þessar aðfarir. „Ég hélt að hann væri að koma hingað út af frárennslismálum hjá Blönduósbæ. Hér í fjörunni liggur klósettpappír og mannaskítur úti um allt. Ég reyndi að sýna honum það en það skipti hann víst engu máli.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga