Fréttir | 27. júní 2016 - kl. 10:00
Leituðu vélhjólamanns á Arnarvatnsheiði

Björgunarsveitir úr Húnavatnssýslum og Borgarfirði voru kallaðar út um helgina til að leita að erlendum vélhjólamanni á Arnarvatnsheiði. Maðurinn hafði óskað eftir aðstoð en hann hafði fest hjól sitt og ekki átta sig vel hvar hann væri staddur. Þannig gat hann ekki gefið greinargóða lýsingu á staðsetningu sinni. Maðurinn fór á Arnarvatnsheiðina úr Miðfirði og var á suðurleið af heiðinni. Hann fannst á Stórasandi eftir þó nokkra leit. Sagt er frá þessu á Facebook síðu Björgunarsveitarinnar Húna í Húnaþingi vestra.

Farið var með manninn austur á Kjöl og komið í húsaskjól í Áfanga eftir að búið var að hressa hann við. Björgunarsveitir fóru með hjólið hans en hann reyndist ófær um að aka því sjálfur.

Í samtali við Morgunblaðið segir Sigfús Heiðar Jóhannsson í björgunarsveitinni Blöndu á Blönduósi að upphafspunktur aðgerða hafi verið á Arnarvatnsheiði. Mannskapurinn hafi bæði farið úr norðri og suðri. Á heiðinni hafi fundist hjólför sem beindu leit til austurs, fyrst á Víðidalstunguheiði og svo áfram. Fjórhjólamenn úr björgunarsveit hafi svo fundi manninn á Stórasandi eins og áður sagði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga