Fréttir | 29. júní 2016 - kl. 09:33
Mistök gerð við uppsetningu á valgreiðslukröfum

Mistök voru gerð við uppsetningu valgreiðslukrafna í netbönkum vegna Húnavökuritsins. Eins og áður hefur komið fram ákvað Ungmennasamband Austur-Húnvetninga að dreifa Húnavökuritinu í flest hús á svæðinu í byrjun þessa mánaðar. Farið var eftir íbúaskrá og ritinu dreift á hvert skráð heimili. Í kjölfarið átti að senda út valgreiðslukröfur í netbanka hjá einum völdum íbúa hvers heimilis, oftast þeim elsta en þó voru undantekningar á því.

Í auglýsingu frá stjórn USAH í Glugganum kemur fram að í ljós hafi komið að gerði hafi verið mistök við uppsetningu krafnanna á hluta þeirra sem þær voru sendar á. Kröfurnar áttu að heita „Húnavökurit 2016 – valgreiðslukrafa,“ en fyrir mistök voru þær skráðar í rangan dálk og heita því „Bókasafn“. Þá var eindagi settur á 4. júlí 2016 í stað þess að vera 10. desember 2016 eins og áætlað var. Vextir munu ekki leggjast á kröfurnar og verða þær felldar niður 10. desember næstkomandi.

Stjórn USAH biðst velvirðingar á þessum mistökum og vonar að þetta hafi ekki valdið neinum óþægindum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga