Blöndubrú
Blöndubrú
Fréttir | 22. júlí 2016 - kl. 20:48
Blöndubrú lagfærð í ágúst

Vegagerðin mun hefja lagfæringar á Blöndubrú í næsta mánuði. Taka á burt steyptu stéttina sem liggur sunnan megin á brúnni og við það mun akreinin á brúargólfinu breikka um 60-70 sentímetra. Sett verður nýtt vegrið sunnan megin á brúna og brúargólfið malbikað. Vegurinn beggja megin brúarinnar verður svo breikkaður í samræmi við breikkun akbrautar á brúnni. Stéttin norðan megin á brúnni mun standa óbreytt.

Samhliða framkvæmdum Vegagerðarinnar þarf Blönduósbær að ráðast í breytingar á vatnsveitu sem liggur undir brúnni og nemur kostnaðaráætlun um 6,2 milljónir króna. Á byggðaráðsfundi á miðvikudaginn var samþykkt að ráðast í framkvæmdirnar. Jafnframt var samþykkt að fresta framkvæmdum við Félagsheimilið til næsta árs til að mæta kostnaði við framkvæmdirnar við vatnsveituna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga