Fréttir | 30. júlí 2016 - kl. 07:44
Flest bú með yfir 600 fjár á Norðurlandi vestra

Samkvæmt nýlegri skýrslu Byggðastofnunar um dreifingu sauðfjár á Íslandi kemur fram að af 470.678 kindum á landinu í nóvember 2015 voru 38.266 í Austur-Húnavatnssýslu og 37.716 í Vestur-Húnavatnssýslu. Af 2.498 sauðfjárbúum í landinu voru 120 í Austur-Húnavatnssýslu og 108 í Vestur-Húnavatnssýslu. Sauðfjárbú með fleiri en 600 kindur voru flest á Norðurlandi vestra eða 35 og sauðfjárbúr með 400-599 kindur voru einnig flest á Norðurlandi vestra eða 75.

Þegar litið er til þeirra búa sem eru með 200–399 kindur voru flest þeirra á Suðurlandi eða 131 og næstflestir á Norðurlandi vestra, eða 116. Þeir aðilar sem voru með færri en 200 kindur voru 1.587 eða 63,5% sauðfjárbúa.

Ef horft er til fjölda sauðfjár eftir landsvæðum og stærð búa kemur í ljós að 17,4% alls sauðfjár er á búum með 600 kindur eða fleiri, 29,3% er á búum sem halda 400 til 599 kindur. Samtals er því tæpur helmingur sauðfjár á búum með fleira en 400 fjár.

Ef horft er til fjölda sauðfjár í sveitarfélögum eru flestar kindur í Húnaþingi vestra eða 37.716 og næst flestar í Skagafirði eða 34.623. Í Blönduósbæ eru 3.338 kindur, 102 á Skagaströnd, 6.281 í Skagabyggð og 28.545 í Húnavatnshreppi. Sauðfjárbú í Blönduósbæ eru 14 talsins, á Skagaströnd eru þau 2, í Skagabyggð 22 og í Húnavatnshreppi 82. Í Skagafirði eru þau 182 og í Húnaþingi vestra 108 eins og áður sagði.

Fram kemur í skýrslu Byggðastofnunar að gögn um fjölda sauðfjár miðist við vetrarfóðraðar kindur samkvæmt haustskýrslum bænda og frístundabænda til Matvælastofnunar frá nóvember 2015. Með fjölda kinda er hér átt við samtölu fyrir fjölda áa, hrúta, sauða, lambhrúta, geldinga og lambgimbra.

Fjöldi sauðfjárbúa samkvæmt gögnunum er 2.498 og þar af eru 2.175 lögbýli samkvæmt lögbýlaskrá Þjóðskrár. Staðsetningarhnit sauðfjárbúanna eru flest fengin frá Þjóðskrá en 303 staðsetningarhnit þurfti að áætla út frá heimilisfangi og gögnum um vegakerfi sem kemur frá Landmælingum Íslands.

Skýrslu Byggðastofnunar má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga