Ljósmynd: hunathing.is
Ljósmynd: hunathing.is
Fréttir | 23. ágúst 2016 - kl. 10:10
Styrkir úr Húnasjóði afhentir

Afhending styrkja úr Húnasjóði fyrir árið 2016 fór fram 18. ágúst síðastliðinn á kaffihúsinu Hlöðunni á Hvammstanga. Það er byggðarráð Húnaþings vestra sem úthlutar úr sjóðnum og var það gert á fundi ráðsins 25. júlí síðastliðinn. Formaður byggðarráðs, Elín Jóna Rósinberg afhenti styrkina. Styrkfjárhæð á hvern styrkþegar er 100.000 krónur.

Styrkþegarnir 2016 eru:

Guðríður Hlín Helgudóttir,  nám til BA prófs í ferðamálafræði.
Kolbrún Arna Björnsdóttir, nám til BA prófs í japönsku máli og menningu
Kristrún Pétursdóttir,  nám til BS prófs í næringarfræði
Sigrún Soffía Sævarsdóttir,  nám til BS prófs í umhverfis- og byggingarverkfræði
Þorgrímur Guðni Björnsson, nám til BS prófs í íþróttafræði

Húnasjóður er sjóður sem hjónin Ásgeir Magnússon og Unnur Ásmundsdóttir frá Ægissíðu á Vatnsnesi stofnuðu til að minnast Alþýðuskóla Húnvetninga en Ásgeir stofnaði skólann árið 1913 og stýrði honum til ársins 1919.

Þeim hjónum var mikið í mun að vestur Húnvetningar hefðu tækifæri til að mennta sig og auk þess að stofna Húnasjóð gáfu þau árið 1960 Háskóla Íslands 10.000 kr. gjöf til eins herbergis í fyrirhuguðum nýjum stúdentagarði. Herbergið skyldi nefnast Ægissíða og stúdent úr Vestur Húnavatnssýslu hafa forgangsrétt til að búa í herberginu.

Við sameiningu sveitarfélaga 2000 var Húnasjóður endurvakinn og ný skipulagsskrá rituð. Úthlutað er úr sjóðnum árlega og miðast fjármagn við framlag frá sveitarsjóði ásamt hálfum vöxtum höfuðstóls.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga