Frá Skagaströnd
Frá Skagaströnd
Fréttir | 23. ágúst 2016 - kl. 10:25
Skagginn 2016 - Gleðidagar á Skagaströnd

Skagstrendingar ætla að gera sér glaðan dag um næstu helgi, dagana 26.-28. ágúst, og halda bæjarhátíðina Skaggann. Nærsveitungum er auðvitað boðið að vera með. Dagskrá hátíðarinnar liggur fyrir og má nálgast hana á vef sveitarfélagsins. Það er tómstunda- og menningarmálanefnd Skagastrandar sem stendur fyrir dagskránni og óskar hún eftir samstarfi við íbúa, einkum þó gleði þeirra og jákvæðu viðhorfi til að gera sér dagamun og eiga góðar stundir saman.

Hátíðin verður formlega sett föstudaginn 26. ágúst klukkan 17:30 með fallbyssuskoti við Fellsborg. Strax á eftir býður Ungmennafélagið Fram til 90 ára afmælishátíðar í Fellsborg og á íþróttavellinum. Um kvöldið verður opið hús hjá listamönnum á efstu hæð hjá BioPol, farin verður ljósaganga um Höfðann, tónleikar verða á útisviði á Hólanesi, kósýkvöld í sundlauginni og trúbador á Borginni.

Á laugardeginum verður margt um að vera og fjölbreytt dagskrá. Froðu-diskó verður á Kaupfélagstúninu, björgunarsveitin Strönd verður með bíla- og tækjasýningu í Bjarnabúð, Samkaup Úrval býður í grillaðar pylsur, sveitamarkaður verður í taldi við Árnes, myndlystasýning í Kaffi Bjarmanesi, loftbolti á sparkvellinu, hoppukastali á Hólanesi, spákonugjörningur við Spákonuhof og barnadagskrá á útisviði á Hólanesi.

Þá verður kaffihlaðborð í Bjarmanesi, opið hús í Nesi listamiðstöð og tónleikar á útisviði á Hólanesi. Klukkan 22:30 á laugardagskvöld hefst varðeldur á Hólanesi með varðeldasöngvum og kvöldstemningu og klukkan 23:00 verða tónleikar og dans á Borginni.

Á sunnudaginn verður gengið á Spákonufell með leiðsögn, húsdýragarðurinn á Kerlingarholti verður opinn og lummukaffi í Árnesi, elsta húsinu á Skagaströnd, svo sitthvað sé nefnt.

Dagskrána í heildsinni má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga